Ólögmætt samráð

Allt samráð milli keppinauta á markaði um verð, afslætti, viðskiptakjör, skiptingu markaða, framleiðslu eða önnur viðskiptaleg atriði er bannað.

Samráð á vettvangi hagsmunasamtaka

12. gr. samkeppnislaga tekur fyrir það að samtök fyrirtækja ákveði samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögum þessum. Segir jafnframt að bannið taki til stjórnarmanna samtaka, starfsmanna þeirra og manna sem valdir eru til trúnaðarstarfa í þágu samtakanna.

Með því að fella samtök fyrirtækja undir samkeppnisreglur er verið að sporna gegn því að fyrirtæki noti ekki samtök sem þeir tilheyra sem yfirvarp á brotum þeirra á samkeppnislögum.

 Brot gegn 12. gr. laganna er sjálfstætt brot. Í lögskýringargögnum kemur fram að í ákvæðinu „sé hnykkt á því að jafnt samtökum fyrirtækja sem fyrirtækjum sjálfum er óheimilt að standa að eða hvetja til hindrana sem brjóta í bága við bannákvæði þessara laga...“ Efnisinntak ákvæðisins kemur þó að nokkru leyti fram í 10. gr. samkeppnislaga.

 Með ákvörðun samtaka fyrirtækja í skilningi samkeppnisréttarins er átt við hvers konar bindandi eða leiðbeinandi ákvarðanir eða tilmæli sem samtökin beina til aðildarfyrirtækja þannig að þau geti haft áhrif á viðskiptahætti félagsmanna. Engar formkröfur gilda um þessar ákvarðanir samtaka fyrirtækja.

Hugtakið hvatning í 12. gr. laganna gefur til kynna að löggjafinn hafi viljað leggja sérstaka áherslu á að ákvæðið taki til hvers konar óbindandi ráðstafana samtaka fyrirtækja sem hafa það að markmiði að raska samkeppni. Nær því hugtakið til allra aðgerða og ráðstafana samtaka fyrirtækja sem ætlað er að stuðla að því að aðildarfyrirtæki hegði sér með tilteknum hætti. Slík hvatning getur verið á hvaða formi sem er. Sérkenni slíkra samtaka er að oft eru meðlimir þeirra öll fyrirtæki í ákveðinni atvinnugrein. Formenn eða framkvæmdastjórar slíkra samtaka tala í nafni greinarinnar allra. Augljóst er að hvatningar slíkra fyrirsvarsmanna samtaka fyrirtækja til aðgerða sem hafa í för með sér samkeppnishindranir geta verið áhrifamiklar og haft skaðleg áhrif á samkeppni á viðkomandi markaði.

Margvíslegar aðgerðir samtaka fyrirtækja geta fallið undir 12. gr. laganna ef þær hafa það að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni eða henni raskað. Hér mætti nefna tilmæli, ráðleggingar eða upplýsingagjöf.

Ber að varast að á vettvangi eins og hjá samtökum fyrirtækja getur skapast hætta á upplýsingaskiptum sem kunna að brjóta í bága við bann ákvæði í 10. gr. laganna. Leggur sú grein blátt bann við öllu samráði keppinauta og samstilltum aðgerðum.

Í dæmaskyni eru hér talin upp atriði sem geta fallið undir 12. gr. samkeppnislaga, sbr. 10. gr. laganna.

·         Ákvörðun eða önnur umfjöllun um gjaldskrá eða „eðlilega“ verðlagningu aðildarfélaga.

·         Ákvarðanir eða önnur umfjöllun um að hækka verð, lækka verð eða halda því óbreyttu.

·         Samræming eða önnur umfjöllun um hvers konar viðskiptaskilmála sem gilda gagnvart viðskiptavinum                aðildarfyrirtækja.

·         Umfjöllun eða umræður um að aðildarfyrirtæki eiga ekki viðskipti við tiltekna aðila.

·         Umfjöllun eða umræður um verð, verðþróun, viðskiptakjör, verðbreytingar á aðföngum og öðrum                            kostnaðarliðum.

·         Umfjöllun eða umræður um rekstrar-, efnahags- og viðskiptalega stöðu keppinauta eða viðskiptavini                    aðildarfélaganna.

·         Upplýsingaskipti eða upplýsingamiðlun um verð, kostnað eða kostnaðaruppbyggingu,                                              kostnaðarhækkanir, viðskiptavini, framboð og söluskilmála.

·         Opinbert fyrirsvar varðandi verðlagningu eða þjónustu aðildarfyrirtækja. Tekur þetta m.a. til umræðu á                  opinberum vettvangi um verð og verðbreytingar aðildarfyrirtækja. Hér fellur ekki undir þátttaka í almennri            umfjöllun um viðkomandi atvinnugrein í fjölmiðlum, í fræðslu og upplýsingaskyni.

Starfsemi samtaka fyrirtækja getur verið gagnleg og haft jákvæð áhrif á markaði. Slík samtök standa oft í hagsmunagæslu fyrir aðildarfyrirtæki sín gagnvart stjórnvöldum með það að markmiði að bæta rekstrarskilyrði þeirra.

Fordæmi eru fyrir því að samtök fyrirtækja hafa sett sér innri reglur sem tryggi að samstarf aðildarfyrirtækja innan samtakanna verði ávallt sambærilegar samkeppnislögum. 


Tengdar ákvarðanir

Tengdar ákvarðanir

Byggingaþjónusta

Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun


Fjármálaþjónusta

Neysluvörur, rekstrarvörur og fleira

Orkumál

Samgöngu- og ferðamál

  •  

Sérfræðiþjónusta og önnur þjónusta

  •  

Umhverfismál

  •  

Mennta og menningarmál

  •