Samrunamál

Samruni í skilningi samkeppnislaga telst hafa átt sér stað þegar breyting verður á yfirráðum fyrirtækis til frambúðar, svo sem vegna sameiningar tveggja fyrirtækja eða yfirtöku eins fyrirtækis á öðru

Samrunamál

Samkeppniseftirlitið hafði til skoðunar samruna Greiðslumiðlunar Íslands ehf. (GMÍ) og Faktoríu ehf. Greiðslumiðlun Íslands starfar einkum á markaði fyrir milli- og löginnheimtu krafna í gegnum dótturfélag sitt Motus. Faktoría starfar á markaði fyrir kröfufjármögnun og veitir fyrirtækjum lán gegn veði í viðskiptakröfum (e. factoring).

Samrunaaðilar starfa því að meginstefnu til á ólíkum mörkuðum og samanlögð hlutdeild samrunaaðila í kröfufjármögnun er óveruleg. Samkeppniseftirlitið tók einnig til skoðunar möguleg lóðrétt áhrif samrunans vegna tengsla á milli kröfufjármögnunar og innheimtuþjónustu. Var það mat eftirlitsins að samrunaaðilar myndu hvorki hafa getu né hvata til þess að útiloka keppinauta sína. Loks tók eftirlitið til skoðunar eignarhlut Landsbankans í GMÍ og þar með Faktoríu í kjölfar samrunans. Í ljósi aðstæðna í málinu og yfirlýsinga málsaðila taldi eftirlitið ekki tilefni til þess að grípa til íhlutunar vegna eignarhlutarins.

Í ljósi alls framangreinds er það mat Samkeppniseftirlitsins að ekki er tilefni til þess að grípa til íhlutunar vegna samrunans.