Samrunamál

Samruni í skilningi samkeppnislaga telst hafa átt sér stað þegar breyting verður á yfirráðum fyrirtækis til frambúðar, svo sem vegna sameiningar tveggja fyrirtækja eða yfirtöku eins fyrirtækis á öðru

Samrunamál

Með bréfi dags. 30. ágúst 2019, var Samkeppniseftirlitinu tilkynnt um fyrirhuguð kaup Hópsness ehf. (Hópsnes) á öllu hlutafé í Hringrás hf. (Hringrás).

 

Starfsemi sú er mál þetta varðar er á markaði fyrir meðhöndlun úrgangs og undirmörkuðum hans, þ.á m. á markaði fyrir söfnun endurvinnsluefna. Í þessu máli er að meginstefnu um að ræða samsteypusamruna Hópsness ehf. og Hringrásar, sem starfa aðeins að nokkru leyti til á sömu eða tengdum mörkuðum. Þannig er það starfsemi Hópsness, í gegnum dótturfélag sitt HP Gáma, sem skarast helst við starfsemi Hringrásar við móttöku og meðhöndlun brotajárns takmörkuð. Þá liggur fyrir að keppinautar með umtalsverðan markaðsstyrk munu áfram starfa á mörkuðum málsins.

 

Markaðir fyrir meðhöndlun úrgangs á Íslandi eru að mati Samkeppniseftirlitsins að miklu leyti samþjappaðir og starfa tiltölulega fá fyrirtæki á þessu sviði. Af þeim sökum er að mati eftirlitsins tilefni til þess að fylgjast vel með samþjöppun á þessum mörkuðum og mögulegu samstarfi keppinauta. Að gögnum málsins virtum er það þó niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að kaup Hópsness á öllu hlutafé í Hringrás leiði ekki til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist, eða að samkeppni verði raskað að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Af þeim sökum er það niðurstaða eftirlitsins að ekki sé ástæða til að aðhafast vegna þessa samruna, s.s. með íhlutun í formi ógildingar eða setningu skilyrða.