Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Aðgerðir til að styrkja samkeppnisaðstæður á póstmarkaði

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 8/2017
 • Dagsetning: 17/2/2017
 • Fyrirtæki:
  • Íslandspóstur hf.
 • Atvinnuvegir:
  • Samgöngur og ferðamál
  • Póstþjónusta
 • Málefni:
  • Markaðsyfirráð
 • Reifun

  Ákvörðun þessi byggir á tvíhliða sátt milli Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts. Í sáttinni er með heildstæðum hætti leitast við að leysa til frambúðar úr þeim samkeppnisvandamálum sem kristallast hafa í margvíslegum ábendingum og kvörtunum yfir starfsemi félagsins sem borist hafa Samkeppniseftirlitinu. Flestar kvartanirnar hafa tengst beint eða óbeint grunsemdum keppinauta um að hagnaður úr einkaréttarstarfsemi Íslandspósts hafi verið nýttur til að víxlniðurgreiða samkeppnisstarfsemi Íslandspósts.  

  Í því skyni að leysa úr þeim vandamálum sem fram komu við rannsókn þessara mála, eru m.a. innleiddar kvaðir í framangreindri sátt sem lúta að gerð sérstakra uppgjöra á mismunandi samkeppnisstarfsemi Íslandspósts og sett skýr viðmið um mat á mögulegri víxlniðurgreiðslu úr einkaréttarstarfsemi til mismunandi samkeppnisstarfsemi Íslandspósts. Þessi viðmið nýtast bæði Íslandspósti sjálfum til innra eftirlits og eftirlitsaðilum við mat á mögulegum samkeppnislagabrotum og eru til þess fallin að fyrirbyggja að víxlniðurgreiðslur eigi sér stað til samkeppnisstarfsemi úr einkaréttarstarfsemi. 

  Kveðið er á um rekstrar- og stjórnunarlegt sjálfstæði dótturfélaga og mælt fyrir um að hraðpóstþjónusta félagsins, TNT hraðflutningar, færist út úr móðurfélaginu í dótturfélag. 

  Í sáttinni eru einnig innleidd ítarleg skilyrði varðandi viðskipti Íslandspósts við dótturfélög, einkum í því skyni að tryggja jafnræði keppinauta dótturfélaga Íslandspósts í viðskiptum við Íslandspóst. Jafnframt er heimildum Íslandspósts til fjármögnunar á starfsemi dótturfélaga settar verulegar skorður til þess að samkeppni raskist á þeim mörkuðum sem dótturfélög Íslandspósts starfa. 

  Þá eru ákvæði í sáttinni sem tryggja eiga með skýrum hætti að keppinautar Íslandspósts njóti sömu kjara í dreifingu fjölpósts á afskekktum svæðum og reiknuð eru fjölpóstsstarfsemi Íslandspósts til gjalda fyrir sömu dreifingu. Ennfremur er kveðið á um að keppinautar Íslandspósts á sviði póstþjónustu skuli njóta sambærilegra skilmála og kjara í viðskiptum við Íslandspóst og aðrir viðskiptavinir félagsins í sömu stöðu og bann er lagt við ómálefnalegri höfnun á viðskiptum við keppinauta á sviði alþjónustu Íslandspósts. 

  Kveðið er á um tilteknar breytingar á innra starfsskipulagi móðurfélagsins. Fela þær í sér að skilið er á milli söluþátta starfseminnar og þess sviðs móðurfélagsins sem annast kostnaðarúthlutun. Er með þessu m.a. stuðlað að því að úthlutun kostnaðar félagsins vegna einkaréttarstarfsemi annars vegar og margvíslegrar samkeppnisstarfsemi hins vegar eigi sér stað með hlutlægum hætti og raski ekki samkeppni. Almennt stuðlar framangreindur aðskilnaður starfseminnar að því að minni hætta skapist á hagsmunaárekstrum. 

  Loks skal þess getið að m.a. er kveðið á um stofnun sérstakrar eftirlitsnefndar sem fylgir sáttinni eftir, tekur við kvörtunum og tekur ákvarðanir í samræmi við fyrirmæli sáttarinnar. Tveir af þremur nefndarmönnum skulu vera óháðir Íslandspósti.

Staða máls

Áfrýunarnefnd samkeppnismála

Úrskurðir