16.8.2017

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins  þar sem lokið var rannsóknum á starfsemi Íslandspósts

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur með tveimur úrskurðum, dags. 14. ágúst sl., staðfest ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2017, sem kveður á um ítarleg skilyrði og breytingar á starfsemi Íslandspósts. Voru skilyrðin sett í því skyni að vinna gegn samkeppnishömlum sem Samkeppniseftirlitið taldi að rekja mætti til einkaréttar á dreifingu áritaðra bréfa undir 50. gr. og sterkrar stöðu Íslandspósts á póstmarkaði og tengdum mörkuðum, sbr. nánar frétt Samkeppniseftirlitsins dags. 17. febrúar sl.

Fyrrgreind ákvörðun byggði á sátt milli Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins. Með ákvörðuninni lauk rannsóknum Samkeppniseftirlitsins á útistandandi málum vegna starfsemi Íslandspósts. Rannsóknir Samkeppniseftirlitsins í þessu sambandi tóku bæði til formlegra kvartana og ábendinga.

Tveir kvartendur, Póstmarkaðurinn ehf. og Samskip ehf., kærðu ákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og kröfðust þess að hún yrði felld úr gildi. Töldu þeir að kvartanir þeirra hefðu ekki fengið nauðsynleg málalok. Rétt er að taka fram að Póstmarkaðurinn er dótturfélag Samskipa og því um einn og sama hagsmunaaðila að ræða á samstæðugrunni.

Niðurstaða áfrýjunarnefndar

Með úrskurðum áfrýjunarnefndar er ákvörðun Samkeppniseftirlitsins staðfest. Telur nefndin að efnisatriði hinnar undirliggjandi sáttar séu heildstæð, ítarleg og gangi langt í þá átt að koma fyrirfram í veg fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu Íslandspósts. Samkeppniseftirlitinu hafi verið heimilt að gera sáttina og í henni hafi verið brugðist við umkvörtunarefnum með fullnægjandi hætti.

Sjá nánar úrskurði áfrýjunarnefndar nr. 1/2017 og 3/2017.

Með þriðja úrskurði sínum, nr. 2/2017, leysti áfrýjunarnefndin ennfremur úr kæru Póstmarkaðarins ehf. vegna ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins um að aðhafast ekki frekar vegna kvörtunar fyrirtækisins er varðar gjaldskrá Íslandspósts innan einkaréttar. Hafði Samkeppniseftirlitið lokið þessu máli með bréfi, samhliða ákvörðun nr. 8/2017. Staðfesti áfrýjunarnefnd þá ákvörðun.

Viðamiklar breytingar á starfsemi Íslandspósts – eftirlitsnefnd skipuð.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er mælt fyrir um viðamiklar breytingar á starfsháttum og skipulagi Íslandspósts. Þar er m.a. kveðið á um skipan sérstakrar eftirlitsnefndar sem fylgist með því að þessar breytingar gangi eftir. Nefndin hefur verið skipuð og er formaður nefndarinnar Viðar Lúðvíksson, hæstaréttarlögmaður. Geta viðskiptavinir og keppinautar Íslandspósts beint til nefndarinnar kvörtunum og ábendingum um starfsemi fyrirtækisins.