Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Samruni vegna kaupa Samkaupa hf. á eignum tveggja verslana af Basko verslunum ehf.

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 14/2019
  • Dagsetning: 16/5/2019
  • Fyrirtæki:
    • Samkaup hf.
    • Basko ehf.
  • Atvinnuvegir:
    • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
    • Matvörur
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Ákvörðun þessi varðar kaup Samkaupa hf. (hér eftir Samkaup) á verslunum Basko verslana ehf. (hér eftir Basko) í Reykjanesbæ og á Akureyri sem reknar hafa verið undir vörumerkinu Iceland. Ákvörðunin kemur í framhaldi af því að kaup Samkaupa á eignum 12 verslana Basko voru heimiluð í nóvember 2018, sbr. ákvörðun nr. 29/2018. Í því máli, sem varðaði 14 verslanir, gaf Samkeppniseftirlitið til kynna strax á fyrstu stigum máls að því sýndist að samruninn hefði ekki skaðleg áhrif á samkeppni á höfuðborgarsvæðinu, en líkur væru á því að samkeppni myndi skaðast á staðbundnum svæðum, þ.e. einkum á Suðurnesjum og á Akureyri. Rannsókn málsins styrkti þetta mat eftirlitsins. Afréðu samrunaaðilar þá að undanskilja verslanir á Akureyri og í Reykjanesbæ frá upphaflegum samningi. Á þeim grunni var Samkeppniseftirlitinu kleift að taka afstöðu til kaupa Samkaupa á 12 verslunum Basko, sbr. fyrrgreinda ákvörðun. Í framhaldinu tilkynntu samrunaaðilar að nýju kaup Samkaupa á útistandandi tveimur verslunum Basko. Þau kaup eru til umfjöllunar í máli þessu. Það er niðurstaða rannsóknar Samkeppniseftirlitsins að þegar litið sé til samþjöppunar á dagvörumarkaði á Akureyri- og Eyjafjarðarsvæðinu annars vegar og á Suðurnesjum hins vegar, markaðshlutdeildar Samkaupa og annarra keppinauta og breytingar á hlutdeild Samkaupa í kjölfar samrunans þá raski hann samkeppni á viðkomandi mörkuðum með umtalsverðum hætti.

    Rannsókn málsins leiddi í ljós að aðeins þrír aðilar, sem hafa merkjanlega hlutdeild, eru starfandi á hinum hefðbundna dagvörumarkaði á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu, þ.e. Hagar hf. með verslanir Bónuss og Hagkaups, Samkaup með verslanir Nettó og Krambúðarinnar og Basko með verslun Iceland. Í kjölfar samrunans fækkar því keppinautum úr þremur í tvo, hlutdeild Samkaupa yrði [40-45]% og samanlögð hlutdeild Samkaupa og Haga á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu yrði [95-100]%. Samþjöppun á markaðnum er jafnframt mikil og myndi aukast verulega. Gefur þetta ríka vísbendingu um þau samkeppnislegu vandamál sem leiða af samrunanum.

    Á Suðurnesjum eru fjórir aðilar, sem hafa merkjanlega hlutdeild, starfandi á hinum hefðbundna dagvörumarkaði, þ.e. Hagar hf. með verslanir Bónuss og Hagkaups, Samkaup með verslanir Nettó, Krambúðarinnar og Kjörbúðarinnar, Festi hf. með verslun Krónunnar og Basko með verslun Iceland. Í kjölfar samrunans fækkar því keppinautum úr fjórum í þrjá, hlutdeild Samkaupa yrði [45-50]% og samanlögð hlutdeild Samkaupa og Haga, stærstu aðilanna á markaðnum, yrði [80-85]%. Samþjöppun á markaðnum er jafnframt mikil og myndi aukast verulega. Gefur þetta einnig ríka vísbendingu um þau samkeppnislegu vandamál sem leiða af samrunanum.

    Samruninn myndi leiða til þess að náinn keppinautur Samkaupa á Akureyri og í Reykjanesbæ hyrfi af markaðnum og að samruninn myndi af þeim sökum leiða til umtalsverðrar röskunar á samkeppni á þessum svæðum. Þá leiða aðgangshindranir að markaðnum til þess að ólíklegt er að nýr og öflugur keppinautur geti komið inn á markaðinn innan skamms tíma og dregið úr skaðlegum áhrifum samrunans. Loks er það jafnframt niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að þau skilyrði sem samrunaaðilar hafa lagt fram vegna samrunans dugi ekki til þess að vega upp þá samkeppnislegu röskun sem leiðir af samrunanum.

    Samrunaaðilar hafa byggt á því sjónarmiði að Samkeppniseftirlitinu beri að heimila samruna þessa máls til þess að styrkja Samkaup sem þriðja stærsta keppinautinn á dagvörumarkaði á landsvísu. Verði samruninn ekki samþykktur muni það styrkja stöðu Haga hf. og Festi hf. Af þessum sökum er rétt að árétta að það er verkefni Samkeppniseftirlitsins í samrunamálum að meta áhrif samruna á samkeppni og þar með jafnframt þá hag neytenda á viðkomandi markaði. Á það jafnt við um stóra sem smáa landfræðilega markaði og samkeppnislög leyfa ekki að lífskjör neytenda á einum landfræðilegum markaði séu skert svo viðkomandi fyrirtæki geti styrkt sig á öðrum markaði. Styrking á stöðu Samkaupa má þannig ekki vera á kostnað neytenda á Akureyri og í Reykjanesbæ. Þetta sjónarmið samrunaaðila getur því ekki haft þýðingu eins og sakir standa í þessu máli.

    Í ljósi framangreinds er óhjákvæmilegt að ógilda samrunann.