Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Undanþága til handa Samtökum ferðaþjónustunnar vegna útbreiðslu COVID-19

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 9/2020
 • Dagsetning: 4/3/2020
 • Fyrirtæki:
  • Samtök ferðaþjónustunnar
 • Atvinnuvegir:
  • Samgöngur og ferðamál
 • Málefni:
  • Undanþágur
 • Reifun

   Undanþága til handa Samtökum ferðaþjónustunnarvegna útbreiðslu COVID-19

   

                                                                                            I.

                                                                         Málavextir og málsmeðferð

  Með bréfi, dags. 3. mars 2020 óskuðu Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) eftir undanþágu Samkeppniseftirlitsins frá banni 12. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 við samkeppnishamlandi aðgerðum samtaka fyrirtækja, sbr. bann 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 við samráði, vegna nánar tilgreindra aðgerða samtakanna sem miða að því að auðvelda ferðaþjónustuaðilum að bregðast við breyttum aðstæðum vegna kórónaveiru COVID-19.

  Í undanþágubeiðninni eru reifaðar þær aðgerðir sem almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur ráðist í og þróun veirunnar á heimsvísu og hér á landi. Er jafnframt gerð grein fyrir því að yfirvofandi sé alvarleg hætta á að rekstrarskilyrði ferðaþjónustufyrirtækja muni versna verulega vegna útbreiðslu veirunnar og koma í auknum mæli fram í bókunarstöðu ferðaþjónustunnar, hvort sem litið sé til skemmri eða lengri tíma. Í því sambandi er minnt á mikilvægi ferðaþjónustu fyrir íslenskt efnahagslíf.

  Þá er rakið í undanþágubeiðninni að ferðaþjónustufyrirtæki í Þýskalandi hafi brugðist við aukinni rekstraráhættu sem fylgi útbreiðslu og fréttum af útbreiðslu kórónaveiru COVID-19 með tímabundnum breytingum á viðskiptaskilmálum, þ.e. styttingu afbókunarfresta og niðurfellingu afbókunargjalda. Jafnframt er vísað til þess að samtök írskra ferðaþjónustufyrirtækja (ITAA) hafi þann 3. mars 2020 sent út tilkynningu til aðildarfyrirtækja sinna þar sem velt er upp möguleikum til þess að liðka til fyrir áframhaldandi ferðamannastraumi, m.a. með auknum sveigjanleika í bókunum. Með því sé ferðamönnum gert auðveldara að skipuleggja ferðalög þrátt fyrir yfirvofandi óvissu.

  Með framangreint í huga óska SAF eftir undanþágu frá ákvæðum 10. og 12. gr. samkeppnislaga til að grípa til tiltekinna aðgerða til að bregðast við þessum erfiðu aðstæðum. Í bréfi SAF segir um þetta:

  Í ljósi framangreinds óska SAF eftir undanþágu frá ákvæðum 10. og 12. gr. laga nr. 44/2005 sem hefur það að markmiði að gera samtökunum fært að senda aðildarfyrirtækjum SAF yfirlýsingu í takt við þá sem ITAA sendu á félagsmönnum [svo] sínum í morgun. Nánar tiltekið óska SAF eftir því að undanþágan geri samtökunum fært að beina m.a. eftirfarandi ábendingum til aðildarfyrirtækjanna:

   

  1. Að aðildarfyrirtækjum SAF beri almennt að taka viðskiptalegar ákvarðanir með sjálfstæðum hætti og gæta þess að þær verði ekki til þess að raska samkeppni,

  2. að í ljósi óvissu sem skapast hefur vegna útbreiðslu 2019-nCoV kunni að vera hætta á að ferðamenn og ferðaþjónustufyrirtæki sem aðildarfyrirtæki SAF eiga í viðskiptum við grípi til þess ráðs að afbóka ferðaþjónustu sem þau hafa þegar pantað eða falli frá því að panta ferðaþjónustu sem þau hafa í hyggju að panta,

  3. að í ljósi framangreinds sé aðildarfyrirtækjum SAF e.t.v. rétt að grípa til aðgerða sem t.d. auka svigrúm viðskiptavina til þess að bregðast við áhættu af útbreiðslunni eða annarri þróun sem henni tengist,

  4. að aðgerðirnar hafi jákvæð áhrif á traust í viðskiptum við íslensk ferðaþjónustufyrirtæki og dragi úr hættu á afbókunum eða komi niður á bókunartíðni,

  5. að aðgerðirnar hafi takmarkaðan gildistíma, t.d. til 30. apríl 2020, en þegar dregur nær lokum gildistímans verði hann endurskoðaður m.t.t. þess hvort tilefni sé til þess að framlengja hann.

  Jafnframt er óskað eftir því að samtökunum verði heimilað að „safna og miðla áfram til aðildarfyrirtækja upplýsingum og hugmyndum um aðgerðir sem komið geta að gagni í því skyni að verjast því að rekstrarforsendur íslenskrar ferðaþjónustu versni eða rekstraráhætta aukist í ljósi útbreiðslu 2019-nCoV.

  Skýrt er tekið fram að SAF hafi ekki í hyggju með ábendingum sínum að skaða samkeppni, t.d. með því að takmarka svigrúm aðildarfyrirtækja til sjálfstæðra viðskiptaákvarðana. Ábendingar til aðildarfyrirtækja verði settar fram sem valkostir sem aðildarfyrirtækin geti lagt til grundvallar við sjálfstæða viðskiptalega ákvarðanatöku.

  Í ljósi þeirra upplýsinga og rökstuðnings sem fylgja erindi SAF og með hliðsjón fyrirliggjandi upplýsingum um hættumat almannavarna og mögulega áhrif COVID-19 á ferðaþjónustuna og þar með íslenskt efnahagslíf, telur Samkeppniseftirlitið ekki þörf á frekari öflun gagna eða sjónarmiða til að leysa úr beiðni samtakanna. Er málið því tekið til ákvörðunar.

                                                                                        II.

                                                                                Niðurstaða

  Ágreiningslaust er í málinu að umbeðnar aðgerðir SAF falli undir 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga og þarfnist því undanþágu í samræmi við 15. gr. sömu laga.

  Í 10. gr. samkeppnislaga er lagt bann við hvers konar samkeppnishamlandi samráði fyrirtækja. Í 12. gr. samkeppnislaga segir að samtökum fyrirtækja sé óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum. Um skýringu á þessum bannreglum samkeppnislaga vísast til m.a. ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015, Brot Byko ehf. á 10. gr. samkeppnislaga, og ákvörðunar nr. 24/2015, Aðgerðir til að styrkja samkeppni í ferðaþjónustu – Sátt við Samtök ferðaþjónustunnar vegna 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga.

  Gagnvart SAF gilda og sérstök fyrirmæli og með þeim hafa samtökin skuldbundið sig til að tryggja að starfsemi þeirra verði ávallt samþýðanleg samkeppnislögum og stuðli að viðskiptalegu sjálfstæði aðildarfyrirtækja samtakanna þannig að samkeppni á viðeigandi mörkuðum verði ekki raskað. Þannig er lagt sérstakt bann við hvers konar samvinnu á vettvangi SAF sem lúta að verði (bæði sölu- og innkaupsverði), álagningu, skilmálum og öðrum viðskiptakjörum og viðskiptalegum atriðum tengdum starfsemi aðildarfyrirtækja samtakanna. Um þessi fyrirmæli vísast nánar til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 24/2015.

  Samkvæmt 15. gr. samkeppnislaga getur Samkeppniseftirlitið veitt undanþágu frá ákvæðum 10. og 12. gr. laganna, enda sé sýnt fram á að aðgerðir sem falla undir undanþáguna;

  a. stuðli að bættri framleiðslu eða dreifingu á vöru eða þjónustu eða efli tæknilegar og efnahagslegar framfarir,

  b. veiti neytendum sanngjarna hlutdeild í ávinningi sem af þeim hlýst,

  c. leggi ekki höft á hlutaðeigandi fyrirtæki sem óþörf eru til að settum markmiðum verði náð og

  d. veiti fyrirtækjunum ekki færi á að koma í veg fyrir samkeppni að því er varðar verulegan hluta framleiðsluvaranna eða þjónustunnar sem um er að ræða.

  Samkeppniseftirlitið getur einnig veitt undanþágu frá þeim fyrirmælum sem gilda skv. ákvörðun nr. 24/2015.

  Í erindi SAF er gerð glögg grein fyrir þeim erfiðleikum sem íslensk ferðaþjónusta stendur frammi fyrir vegna COVID-19. Jafnframt eru færð fyrir því rök að nauðsynlegt sé að finna leiðir til þess að auðvelda ferðamönnum skipulagningu ferða í ljósi yfirstandandi óvissu. Í því felist tækifæri til að vinna gegn þeim samdrætti sem ella yrði. Sömuleiðis er í erindinu gerð skýr grein fyrir því að samtökin hafi ekki í hyggju að draga með nokkrum hætti úr möguleikum aðildarfyrirtækja til sjálfstæðra viðskiptaákvarðana eða samkeppni sín á milli og að tryggt verði að ekki verði fjallað um verðlagningu í ferðaþjónustu. Þá ber erindið með sér að um afmarkaðar og tímabundnar aðgerðir er að ræða sem ætlað er verja eða auka eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu þegar umrædd vá steðjar að.

  Að framangreindu virtu er það mat Samkeppniseftirlitsins að skilyrði 15. gr. samkeppnislaga séu uppfyllt, enda verði umræddar aðgerðir afmarkaðar og lúti þeim skilmálum sem raktar eru hér að framan. Eru þau skilyrði nánar tilgreind í ákvörðunarorði.

  Samkeppnieftirlitið veitir því undanþágu frá 12. og 10. gr. samkeppnislaga í samræmi við ákvörðunarorð. Í þessu felst einnig tímabundin undanþága frá viðeigandi skilyrðum í ákvörðun nr. 24/2015.

                                                                                                  III.

                                                                                     Ákvörðunarorð:„Samtökum ferðaþjónustunnar er í samræmi við 15. gr. samkeppnislaga veitt undanþága frá 12. og 10. gr. samkeppnislaga, til þess að koma á framfæri ábendingum til aðildarfyrirtækja sem raktar eru í lið eitt til sex í erindi samtakanna.

  Í þessu felst einnig tímabundin undanþága frá viðeigandi skilyrðum í ákvörðun nr. 24/2015.

  Einnig eru Samtökum ferðaþjónustunnar veitt heimild til þess að standa fyrir umfjöllun um leiðir til að auðvelda viðskiptavinum aðildarfyrirtækja að taka ákvarðanir um kaup á ferðaþjónustu og auka svigrúm viðskiptavina til að bregðast við áhættu af útbreiðslu COVID-19 og annarri þróun sem henni tengist. Tekur þetta til aðgerða sem ætlað er að verja eða auka eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu. 

  Undanþágan er veitt með eftirfarandi skilyrðum sem falla að þeirri lýsingu sem samtökin hafa gefið á aðgerðunum:

  1. Umfjöllun samtakanna eða aðildarfyrirtækja taki ekki til verðlagningar á þjónustu þeirra.2. Miðlun ábendinga og hugmynda um aðgerðir feli ekki í sér samræmingu viðskiptaskilmála og að svigrúm aðildarfyrirtækja til sjálfstæðra viðskiptaákvarðana verði ekki skert.3. Aðgerðirnar verði tímabundnar og í samræmi við lýsingu í undanþágubeiðni. Við lok aðgerðanna verði teknar saman upplýsingar um umfang og áhrif aðgerðanna og þær kynntar Samkeppniseftirlitinu.

                                                                                                                               Gildir undanþágan til 30. apríl 2020."

                                                                             Samkeppniseftirlitið

                                                                             Páll Gunnar Pálsson