Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Samruni Vinnslustöðvarinnar hf., Útgerðarfélagsins Ós ehf. og Leo Seafood ehf.

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 13/2023
 • Dagsetning: 12/4/2023
 • Fyrirtæki:
  • Vinnslustöðin hf.
  • Útgerðarfélagið Ós ehf.
  • Leo Seafood ehf.
 • Atvinnuvegir:
  • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
  • Sjávarútvegur og fiskvinnsla
 • Málefni:
  • Samrunamál
 • Reifun

  Samkeppniseftirlitið tók afstöðu til samruna Vinnslustöðvarinnar hf. („VSV“), Útgerðarfélagsins Ós ehf. („Ós“) og Leo Seafood ehf. („Leo“).

  Samruninn var tilkynntur með fullnægjandi hætti 28. febrúar 2023 og hófust lögbundnir frestir þá að líða. Rannsókninni lauk á fyrsta fasa þann 4. apríl 2023.

  Samkvæmt upplýsingum í málinu myndu samrunaaðilar fara með tæp 7% af aflahlutdeild í þorskígildiskílóum, sem er undir 12,0% hámarki samkvæmt lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.

  Fyrir lá í málinu að talsverð tengsl eru á milli VSV og FISK Seafood ehf. („FISK Seafood“). Í samrunaskrá kom þannig fram að FISK Seafood eigi tæpan 33% eignarhlut í VSV. Við gagnaöflun var jafnframt upplýst um samstarf þessara aðila við veiðar og vinnslu á makríl. Þá kom í ljós að aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, sem er eigandi FISK Seafood, situr í stjórn VSV.

  Í máli þessu var ekki tekin formleg afstaða til þess hvort umrædd tengsl gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að til yfirráða hafi stofnast umfram það sem gerð hafði verið grein fyrir í samrunatilkynningu. Hins vegar leit eftirlitið til mögulegra víðtækari yfirráða við mat á efnislegum áhrifum samrunans. Í því sambandi mátti nefna að samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu myndu samrunaaðilar og FISK Seafood ráða yfir 12,33% af aflahlutdeildum. Væri það verkefni Fiskistofu að fylgja eftir að farið sé að ákvæðum fiskveiðistjórnunarlaga um hámarks aflahlutdeild og meta hvort aðilar séu tengdir í skilningi laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006. Gaf Fiskistofa umsögn í málinu og gerði ekki athugasemdir við samrunann.

  Það var niðurstaða Samkeppniseftirlitsins í þessu máli að ekki væru forsendur til íhlutunar samkvæmt samkeppnislögum, hvort sem litið væri til hinna tilkynntu yfirráða eða mögulegra víðtækari yfirráða.