Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Meint brot Símans hf. með tilboði í 3G netlykil og áskrift

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 2/2009
  • Dagsetning: 2/7/2009
  • Fyrirtæki:
    • Síminn hf.
    • Nova ehf.
  • Atvinnuvegir:
    • Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun
  • Málefni:
    • Markaðsyfirráð
  • Reifun

    Með bráðabirgðaákvörðun í dag hefur Samkeppniseftirlitið lagt bann til bráðabirgða við tilboði Símans sem kallast „3G netlykill og áskrift fyrir 0 kr. í allt sumar“ á meðan rannsókn eftirlitsins á kæru Nova ehf. vegna tilboðsins stendur yfir. Er sennilegt að tilboðið brjóti í bága við bann samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Það er til þess fallið að skaða samkeppni á viðkvæmum, nýlegum markaði þar sem Nova, yngsti keppinauturinn á fjarskiptamarkaði, hefur verið að ná nokkurri fótfestu.
    Þykir Samkeppniseftirlitinu nauðsynlegt að banna tilboð Símans að svo stöddu vegna þess að sumarið er sá árstími þegar helst er að vænta mikils vaxtar á umræddum markaði. Bið með ákvörðun þangað til endanleg niðurstaða af rannsókn eftirlitsins á kæru Nova liggur fyrir kann því að valda samkeppnislegum skaða á markaðnum sem ekki væri afturkræfur. Kynni keppinautur að hrökklast út af markaðnum við svo búið.
    Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til bráðabirgða gildir til 1. október 2009.

    Bakgrunnsupplýsingar
    Samkeppniseftirlitinu barst kæra frá Nova ehf. 28. maí 2009 vegna tilboðs Símans hf. undir yfirskriftinni „3G netlykill og áskrift fyrir 0 kr. í allt sumar“. Í framangreindu tilboði Símans felst þjónusta sem varðar mögulega tengingu á tölvum við Internetið með notkun 3G (þriðju kynslóðar) netlykils. Þeir sem gerast áskrifendur að 3G gagnaflutningsþjónustu hjá Símanum fá netlykil  og áskrift í þrjá mánuði ókeypis en binda sig í viðskipti við fyrirtækið í sex mánuði. Þessi þjónusta getur m.a. nýst notendum, ekki síst ferðamönnum í sumarbústöðum, tjaldsvæðum og víðar, á svæðum sem ADSL þjónustu nýtur ekki en þar sem 3G þjónusta býðst.  Var þess krafist að háttsemi Símans yrði úrskurðuð ólögmæt og að Símanum yrði án tafar gert að láta af hinni ólögmætu háttsemi. Var krafist bráðabirgðaákvörðunar í málinu.