Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Úrskurðir áfrýjunarnefndar

Samtök ferðaþjónustunnar gegn Samkeppniseftirlitinu

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 1/2022
 • Dagsetning: 30/5/2022
 • Fyrirtæki:

  Engin fyrirtæki finnast

 • Atvinnuvegir:

  Enginn atvinnuvegur finnst

 • Málefni:

  Engin málefni finnast

 • Reifun

  Ágreiningur máls þessa snýr að þeirri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að ekki sé tilefni til að taka til rannsóknar kvörtun áfrýjanda um að skilyrði 14. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 vegna útleigu veiðifélaga á veiðihúsum utan veiðitíma séu uppfyllt. Byggir niðurstaða Samkeppniseftirlitsins á 3. mgr. 8. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 9. gr. reglna nr. 880/2005 um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins með síðari breytingum.

  Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. samkeppnislaga tekur Samkeppniseftirlitið ákvörðun um hvort erindi sem berst stofnuninni gefi nægar ástæður til rannsóknar. Þar er jafnframt mælt fyrir um að við afgreiðslu mála samkvæmt lögunum sé Samkeppniseftirlitinu heimilt að raða málum í forgangsröð. Mat á því hvort erindi gefi tilefni til rannsóknar skal byggt á málefnalegum sjónarmiðum, sbr. m.a. 2. mgr. 9. gr. reglna nr. 880/2005 en þar er jafnframt getið einstakra atriða sem talið er að skipt geti máli við það mat þó ekki sé þar um tæmandi talningu að ræða. Litið hefur verið svo á að hið sama eigi að þessu leyti við um beitingu heimildar til að forgangsraða málum, sbr. t.d. nánari umfjöllun í úrskurðum áfrýjunarnefndar í málum nr. 4/2012 og 4/2019. Jafnframt hefur Samkeppniseftirlitinu verið talið heimilt að hætta rannsókn og fella mál niður á grundvelli 3. mgr. 8. gr. samkeppnislaga, sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar í máli nr. 4/2012. Hefur áfrýjunarnefndin þannig játað Samkeppniseftirlitinu ákveðið svigrúm við mat á því hvernig fjármunum stofnunarinnar er varið til brýnustu verkefna á hverjum tíma en ákvarðanir eftirlitsins um að hætta rannsókn eða hafna því að rannsaka mál sæta endurskoðun nefndarinnar. Þá verður einnig að hafa í huga að ekki er sjálfgefið að sá sem telur að samkeppnislög hafi verið brotin eigi lögvarinn rétt til að rannsókn sé hafin á meintu broti á vegum Samkeppniseftirlitsins.

  Í máli þessu heldur áfrýjandi því fram að útleiga veiðifélaga á veiðihúsum utan veiðitíma hafi í för með sér skekkta samkeppnisstöðu í gisti- og veitingarekstri og því sé tilefni til að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað veiðifélaga varðandi rekstur veiðihúsa annars vegar innan veiðitíma og hins vegar utan veiðitíma, með vísan til 14. gr. samkeppnislaga þar sem veiðifélög starfi í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar í skilningi fyrrgreinds lagaákvæðis. Samkeppniseftirlitið telur að ekki sé tilefni til frekari rannsókna á erindi áfrýjanda þar sem það gefi hvorki vísbendingar um samkeppnishömlur eða ólögmæta háttsemi. Er í því sambandi m.a. vísað til þess að ekki verði séð að skilyrði 14. gr. samkeppnislaga séu uppfyllt í málinu og því ekki ástæða til að hlutast til á grundvelli þess ákvæðis. Því til viðbótar renna sjónarmið varðandi forgangsröðun verkefna hjá stofnuninni enn frekari stoðum undir þá ákvörðun að afhafast ekki frekar vegna kvörtunar áfrýjanda.

  Ákvæði 14. gr. samkeppnislaga hefur að geyma heimild Samkeppniseftirlitsins til þess að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað, annars vegar milli þess hluta rekstrar fyrirtækis sem nýtur opinbers einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Til þess að unnt sé að beita ákvæðinu verður viðkomandi fyrirtæki að vera annað hvort opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar. Þess skal gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af starfsemi sem nýtur einkaleyfis eða verndar.

  Að mati áfrýjunarnefndar hefur áfrýjandi ekki fært fram haldbær rök fyrir því að skilyrði 14. gr. samkeppnislaga varðandi fyrirmæli um fjárhagslegan aðskilnað sé fullnægt hvað varðar útleigu veiðihúsa í eigu veiðifélaga. Er í því sambandi m.a. til þess að líta að ekki verður talið að veiðifélög starfi í skjóli opinbers einkaleyfis. Þá verður sú sérstaða sem veiðifélögum er sköpuð með lögum nr. 61/2006 varðandi ráðstöfun á veiði og nýtingu eigna sinna að mati áfrýjunarnefndarinnar ekki jafnað til verndar í skilningi 14. gr. samkeppnislaga. Þess ber að geta að samkvæmt e-lið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 ber veiðifélögum að nýta eignir félagsins og ráðstafa þeim með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn. Með setningu laga nr. 50/2015 ákvað löggjafinn að kveða sérstaklega á um heimild veiðifélaga til að ráðstafa eignum þeirra utan veiðitíma til skyldrar starfsemi en tilefni þeirrar lagasetningar var dómur Hæstaréttar Íslands frá 13. mars 2014 í máli nr. 676/2013 sem snéri m.a. að heimild til að selja veiðihús á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitímabils samkvæmt lögum nr. 61/2006.

  Með vísan til framangreinds verður ekki séð að mat Samkeppniseftirlitsins á kvörtun áfrýjanda hafi verið ómálefnalegt. Er í því sambandi m.a. horft til þeirra sjónarmiða sem fram koma í 9. gr. reglna nr. 880/2005. Samkvæmt því verður ekki annað séð en að viðhlítandi grundvöllur hafi verið fyrir þeirri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að aðhafast ekki frekar í málinu og að ákvörðunin hafi byggst á fullnægjandi lagagrundvelli og málefnalegu mati á atvikum málsins, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 44/2005 og 9. gr. reglna nr. 880/2005. Að því leiðir að hafna ber kröfu áfrýjanda um ógildingu á hinni kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 3. mars 2022 og um að áfrýjunarnefnd samkeppnismála taki ákvörðun um að veiðifélögum verði skylt að aðskilja rekstur veiðihúsa á veiðitíma annars vegar og rekstur þeirra utan veiðitíma hins vegar. Að sama skapi verður því hafnað að vísa málinu að nýju til Samkeppniseftirlitsins til frekari rannsóknar. Með vísan til þessa er öllum kröfum áfrýjanda í málinu hafnað.