Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Úrskurðir áfrýjunarnefndar

Míla hf. gegn Samkeppniseftirlitinu

 • Sækja skjal
 • Málsnúmer: 4/2023
 • Dagsetning: 9/11/2023
 • Fyrirtæki:

  Engin fyrirtæki finnast

 • Atvinnuvegir:

  Enginn atvinnuvegur finnst

 • Málefni:

  Engin málefni finnast

 • Reifun

  Með kæru, dags. 9. ágúst 2023, hefur Míla hf., hér eftir nefnd áfrýjandi, kært til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, frá 13. júlí 2023, þess efnis að samrunamál Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa Ljósleiðarans ehf. á stofnneti og tengdum búnaði af Sýn hf. snerti ekki hagsmuni áfrýjanda með þeim hætti að áfrýjandi gæti fengið stöðu aðila í málinu og ætti þar af leiðandi ekki rétt á því að kynna sér skjöl og gögn sem málið varðar, sem aðilar stjórnsýslumáls njóta samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  Áfrýjandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verði felld úr gildi, að áfrýjandi fái stöðu aðila í umræddu máli og verði jafnframt veittur aðgangur að þeim gögnum sem áfrýjandi hefur óskað eftir.
  Samkeppniseftirlitið krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

  Ágreiningur máls þessa snýr að því hvort áfrýjandi eigi rétt á því að vera aðili að því samrunamáli sem Samkeppniseftirlitið hefur nú til meðferðar og varðar kaup Ljósleiðarans ehf. á stofnneti og tengdum búnaði af Sýn hf. og þar með rétt til aðgangs að gögnum málsins með vísan til 15. gr. stjórnsýslulaga.
  Samkeppniseftirlitið telur að fyrrgreint samrunamál snerti ekki hagsmuni áfrýjanda með þeim hætti að hann geti fengið stöðu aðila við meðferð málsins hjá stofnuninni jafnvel þótt niðurstaða málsins geti haft einhver áhrif á það samkeppnisumhverfi sem áfrýjandi starfar í. 

  Áfrýjandi telur hins vegar að hann eigi rétt til aðildar að málinu þar sem fyrirhugaður samruni geti haft veruleg áhrif á stöðu hans og snert hann með þeim hætti sem aðgreinir stöðu hans frá öðrum. Hann hafi því verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og þannig eigi hann rétt til að kynna sér öll gögn málsins með vísan til 15. gr. stjórnsýslulaga.

  Það er niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála að ekki hafi verið sýnt fram á að það samrunamál sem varðar kaup Ljósleiðarans ehf. á stofnneti og tengdum búnaði af Sýn hf., tengist áfrýjanda beint eða sérstaklega eða að öðru leyti með þeim hætti að hann geti átt rétt til aðildar að málinu. Verður kröfu áfrýjanda um aðild að fyrrgreindu samrunamáli því hafnað.