21.2.2023 Páll Gunnar Pálsson

Enn af samrunum og beitingu samkeppnislaga

Pistill 3/2023

  • Untitled-design-2023-02-21T211412.224

Í grein sinn í Morgunblaðinu þann 16. febrúar fjallar Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, öðru sinni um afstöðu sína til samkeppnislaga og samkeppniseftirlits á Íslandi.

Í þágu upplýstrar umræðu eru skrif Ragnars tilefni til þess að staldra við nokkur atriði.

Samkeppnislög og EES-samningurinn

Í grein sinni telur Ragnar að hið þjóðhagslega val standi milli tveggja leiða þegar kemur að samkeppni; annars vegar að læsa íslenskan atvinnurekstur „í prísund hins óhagkvæma smárekstrar“, en hins vegar að heimila fyrirtækjum að sameinast í þágu stærðarhagkvæmni og þá að takast á við það ef þau misnota stöðu sína á markaði. Ragnar aðhyllist síðari leiðina og gerir mér síðan upp skoðanir.

Hið rétta er að samhliða upptöku EES-samningsins ákváðu íslensk stjórnvöld að laga leikreglur atvinnulífsins að þeim samkeppnisreglum sem gilda annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu. Af þeim sökum hafa bæði íslensk fyrirtæki og neytendur notið þess að hér gilda sambærilegar reglur og annars staðar í Evrópu.

Í þessu felst m.a. að ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins eru studdar fordæmum annarra samkeppnisyfirvalda á evrópska efnahagssvæðinu. Sama á við um úrlausnir áfrýjunarnefndar samkeppnismála og dómstóla. Þá tryggir Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn einsleita beitingu samkeppnisreglna EES-samningsins.

Árétta ber í þessu sambandi að hinar íslensku og evrópsku samkeppnisreglur horfa m.a. til stærðarhagkvæmni. Þannig er fyrirtækjum heimilað að nýta sér kosti stærðarhagkvæmni ef tryggt er að viðskiptavinir og neytendur njóti ábatans, en ekki einvörðungu stjórnendur og eigendur viðkomandi fyrirtækja.

Það er því ekki rétt að Samkeppniseftirlitið geti valið milli ólíkra valkosta við framkvæmd samkeppnislaga. Ákall Ragnars um breytta framkvæmd Samkeppniseftirlitsins (þ.e. að víkja samrunaeftirliti til hliðar) fela því í reynd í sér kröfu um breytingu á samkeppnislögum og fráhvarf frá þeim reglum sem EES-samningurinn byggir á.

Samkeppni og íslenskur sjávarútvegur

Máli sínu til stuðnings nefnir Ragnar íslenskan sjávarútveg og telur gæfu hans vera að hann sé undanþeginn samkeppnislögum og þar með „ægivaldi“ Samkeppniseftirlitsins.

Í þágu upplýstrar umræðu er rétt að upplýsa Ragnar um að íslenskur sjávarútvegur er ekki undanþeginn samkeppnislögum og hefur því verið undir því eftirliti sem flestar aðrar atvinnugreinar hér á landi búa við.

Eins og ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins bera með sér hafa samrunar sjávarútvegsfyrirtækja ítrekað komið til kasta eftirlitsins, enda hafa íslensk samkeppnislög gilt um starfsemi þeirra hér á landi frá því lögin voru tekin upp.

Það er jafnframt gæfa íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja að þau starfa að meginstefnu til á alþjóðlegum mörkuðum og njóta því samkeppnislegs aðhalds frá öðrum alþjóðlegum sjávarútvegsfyrirtækjum.

Íslenskur sjávarútvegur er því dæmi um það hvernig opnun markaða og samkeppnisaðhald af hendi erlendra fyrirtækja getur eflt og bætt rekstur þeirra íslensku.

Hvað vilja íslensk fyrirtæki?

Í skrifum sínum varpar Ragnar upp sjónarhorni stórfyrirtækja sem vilja ekki lúta skorðum samkeppnislaga.

Þetta er hins vegar ekki það sjónarhorn sem blasir við Samkeppniseftirlitinu í samskiptum þess við þorra íslenskra fyrirtækja. Langflestir stjórnendur þeirra vilja nefnilega að samkeppnislögin og framkvæmd þeirra geri þeim kleift að skapa stærri fyrirtækjum samkeppnislegt aðhald og tryggi þeim valkosti í kaupum eða sölu á aðföngum, afurðum eða þjónustu. Þeir eru þreyttir á að vera í hlutverki Davíðs í baráttu við sinn Golíat.

Þessi afstaða birtist m.a. í neikvæðri afstöðu bænda til kjötafurðastöðva, en vöxtur og viðgangur landbúnaðar byggir m.a. á því að bændur eigi valkosti í kaupum á aðföngum og sölu afurða. Sama á við um alla aðra atvinnustarfsemi.

Sagan um Mílu

Ragnar nefnir að lokum ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa Ardian á Mílu, sem dæmi um einstrengislega og skaðlega framkvæmd samkeppnislaga.

Rétt er í þessu sambandi að rifja upp að við rannsókn málsins kom í ljós að til grundvallar viðskiptunum lá heildsölusamningur milli Símans og Mílu sem var til þess fallinn að skaða hagsmuni fyrirtækja og almennings til langrar framtíðar. Gerðu starfandi fyrirtæki á markaðnum, sem og stjórnvöld á sviði fjarskipta, alvarlegar athugasemdir við þessi áform.

Við rannsókn málsins horfði Samkeppniseftirlitið m.a. til fordæma úr evrópskum samkeppnisrétti og átti samstarf við erlend systureftirlit. Niðurstaða málsins varð sú að samrunaaðilar gerðu verulegar breytingar á hinum undirliggjandi heildsölusamningi. Markmið breytinganna var að greiða fyrir áframhaldandi samkeppni á fjarskiptamarkaði, viðskiptavinum til hagsbóta.

Opinberlega hefur verið greint frá því að kaupverð Mílu hafi lækkað vegna þessa. Það er rökrétt, því breytingar á hinum undirliggjandi samningi voru til þess fallnar að draga úr möguleikum kaupandans til að réttlæta hátt kaupverð með því að unnt yrði í framhaldinu að skapa honum auknar tekjur í skjóli samkeppnishindrana. Á kostnað almennings.

Pistillinn birist fyrst sem grein í Morgunblaðinu þriðjudaginn 14. febrúar 2023, undir fyrirsögninni „Ragnar og samkeppnislögin“.