16.5.2012 Páll Gunnar Pálsson

Passað upp á samkeppnina

Af sameiginlegu eignarhaldi banka á þjónustufyrirtækjum - Pistill nr. 3/2012

Mynd: Páll Gunnar Pálsson forstjóri SamkeppniseftirlitsinsÍ Viðskiptablaðinu þann 10. maí er birt frétt um að verðbréfavörslufyrirtækið Verdis (áður Arion verðbréfavarsla) verði brátt hluti af Arion banka. Í fréttinni er rakið að Landsbankinn hafi á síðasta ári ætlað að kaupa hlut í fyrirtækinu til þess að bjarga rekstrinum. Bankinn hafi hins vegar gefist upp á bið eftir endanlegri niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins. Hann hafi þá beðið í ár eftir niðurstöðunni.

112 virkir dagar eru ekki eitt ár

Af þessu tilefni telur Samkeppniseftirlitið rétt og skylt að rekja meðferð rannsóknarinnar eins og hún liggur fyrir. Rannsókn eftirlitsins hófst 6. maí 2011, en þá bárust Samkeppniseftirlitinu fullnægjandi gögn og tímafrestir byrjuðu að líða. Málinu lauk með ákvörðun nr. 34/2011 þann 17. október 2011, eða innan þeirra tímafresta sem löggjafinn hefur veitt eftirlitinu til rannsóknar samrunamála.

Samkeppniseftirlitið ógilti kaup Landsbankans. Áður en til þess kom hafði eftirlitið ítrekað gefið aðilum kost á að setja fram hugmyndir að skilyrðum sem rutt gætu úr vegi þeirri samkeppnisröskun sem sameiginleg yfirráð tveggja stórra viðskiptabanka á mikilvægu þjónustufyrirtæki höfðu í för með sér. Á þeim tíma voru aðilar málsins ekki reiðubúnir til að ganga eins langt í þeim efnum og eftirlitið taldi nauðsynlegt.

Aðilar málsins kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála þann 14. nóvember 2011. Fyrir nefndinni komu kærendur fram með víðtækari tillögur að skilyrðum, en þeir höfðu áður gert þegar Samkeppniseftirlitið hafði samrunann til skoðunar. Þann 16. febrúar 2012 felldi áfrýjunarnefnd úrskurð Samkeppniseftirlitsins úr gildi. Nefndin tók ekki afstöðu til efnisþátta málsins en lagði fyrir Samkeppniseftirlitið að taka að nýju til athugunar hvort unnt væri að setja kaupunum skilyrði.

Kaupin dregin til baka á lokastigi

Samkeppniseftirlitið hóf að nýju athugun á því hvort unnt væri að setja hinum sameiginlegu yfirráðum bankanna yfir Verdis skilyrði. Í lok mars tilkynnti Landsbankinn að fallið hefði verið frá kaupunum. Á þeim tíma var samrunaaðilum ljóst að meðferð Samkeppniseftirlitsins á málinu væri á lokastigi.

Samkeppniseftirlitinu er ekki kunnugt um ástæður þess að kaup Landsbankans á eignarhlut í Verdis voru dregin til baka. Ljóst er þó að ástæðan getur ekki hafa verið sú að Landsbankinn hafi gefist upp á bið eftir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins, enda lá fyrir að hin síðari athugun væri á lokastigi. Er umhugsunarefni af hverju aðilar málsins sáu ekki ástæðu til að bíða eftir henni, þar sem þeir höfðu sjálfir haft frumkvæði að málinu og knúið málið í þann farveg sem það var í, með kæru sinni til áfrýjunarnefndar.

Skortur á samkeppni á fjármálamarkaði skaðar atvinnulíf og neytendur

Samkeppnishindranir á fjármálamarkaði geta haft mjög neikvæðar afleiðingar fyrir íslenskt atvinnulíf og neytendur. Það er því brýnt að sporna við hvers konar samkeppnisröskun sem stafað getur af sameiginlegum yfirráðum keppinauta á fjármálamarkaði yfir mikilvægum þjónustufyrirtækjum eins og Verdis.

Í þessu sambandi er hægt að greina frá því að í nú er verið að ganga frá sátt Samkeppniseftirlitsins við Reiknistofu bankanna og eigendur hennar þar sem þessir aðilar undirgangast ítarleg skilyrði sem ryðja eiga úr vegi samkeppnisröskun sem stafað getur af Reiknistofunni og eignarhaldi viðskiptabankanna á henni. Nánar verður gerð grein fyrir sáttinni í sérstakri ákvörðun sem birt verður innan tíðar.

 

Páll Gunnar Pálsson

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins

 

[Pistill þessi er birtur sem grein í Viðskiptablaðinu þann 16. maí 2012.]