10.10.2014 Páll Gunnar Pálsson

Samkeppni og kreddur

Pistill nr. 4/2014.

Ögmundur Jónasson, alþingismaður, hefur lagt hressileg orð í belg í opinberri umræðu um samkeppnismál á liðnum dögum, m.a. í kjallaragrein í DV þann 7. október sl. Málflutningur Ögmundar er afdráttarlaus og skapar þannig grundvöll undir umræður um samkeppnislög og beitingu þeirra. Sjálfsagt er að nýta það tækifæri.

Af kreddufestu og kapítalisma

Páll Gunnar Pálsson forstjóri SamkeppniseftirlitsinsÖgmundur líkir Samkeppniseftirlitinu við varðstöðumenn kommúnískrar rétthugsunar í Sovétríkjum síðustu aldar. Með líkum hætti fylgi Samkeppniseftirlitið nú kenningum markaðshyggjunnar eftir af mikilli kreddufestu.

Þarna örlar á þeim gamla misskilningi að Samkeppniseftirlitið sé boðberi tiltekinnar stjórnmálastefnu, þ.e. kapítalisma eða frjálshyggju. Ekkert er fjær sanni.

Samkeppnisreglur eru einmitt settar vegna þess að reynslan sýnir að hætta er á því að fyrirtæki skaði almannahagsmuni með háttsemi sinni. Samráð fyrirtækja eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu leiðir til þess að viðskiptavinir og neytendur skaðast og keppinautar hrökklast út af markaði. Samkeppnisreglur gera hvort tveggja í senn;  þær setja óheftri markaðshyggju skorður og tryggja um leið að ný og smærri fyrirtæki geti þrifist og neytendur þurfi ekki að sæta yfirgangi öflugra fyrirtækja.

Af þessum sökum hafa yfir 120 ríki í heiminum sett sér samkeppnisreglur sem hafa sömu markmið og geyma hliðstæðar efnisreglur, óháð stjórnmálastefnu í hverju landi. Þannig gilda í aðalatriðum sambærilegar samkeppnisreglur víðast hvar um hnöttinn; frá Kanada til Kína, Grænlandi til Grænhöfðaeyja, Brasilíu to Botswana og Úkraínu til Ástralíu. Hvarvetna hafa menn þannig komist að sömu niðurstöðu: Samkeppnisreglur eru nauðsynlegar til að stuðla að þróttmikilli atvinnustarfsemi og bæta hag almennings.

Stórfenglega dæmið

„Stórfenglegt dæmi um kreddufestu Samkeppniseftirlitsins“ telur Ögmundur vera „þegar Bændasamtök Íslands voru látin greiða háa sekt fyrir að ræða verðlagsmál landbúnaðarafurða á þingi samtaka sinna.“ Þarna er vísað til 10 m.kr. sektar sem Samkeppniseftirlitið lagði á Bændasamtökin á árinu 2009. Rannsókn eftirlitsins hafði leitt í ljós að framleiðendur kjúklinga, eggja, grænmetis og svínakjöts, sem ekki lúta opinberri verðlagningu, notuðu vettvang búnaðarþings til verðsamráðs. Umræður bænda um verð á afurðum sem lúta opinberri verðlagningu voru hins vegar ekki taldar fela í sér ólögmætt samráð.

Ákvörðunin var kærð til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Nefndin staðfesti ákvörðunina og taldi að samráðið hefði miðað að því að hækka verð á þessum búvörum, neytendum til tjóns.  Hins vegar lækkaði nefndin sektirnar úr 10 í 7,5 m.kr. Bændasamtökin ákváðu að una úrskurðinum og báru hann ekki undir dómstóla.

Ætli neytendur telji umrætt mál vera dæmi um „kreddufestu“ Samkeppniseftirlitsins?

Mannréttindi fyrirtækja

Ögmundur virðist skipa sér í lið með stórfyrirtækjum, hér á landi og erlendis, sem lengi hafa barist fyrir því að þau njóti sömu mannréttinda og manneskjur. Af þessum meiði eru margvíslegar áhyggjur af réttaröryggi, s.s. því að rannsókn máls, ákvörðun um brot og fyrirmæli um úrbætur séu á hendi sömu stofnunar. Sömuleiðis halda fyrirtæki sem brotið hafa á almannahagsmunum því oft fram að samkeppnislög séu of óskýr til að hægt sé að fara að þeim.

Það er sjálfsagður réttur fyrirtækja að láta reyna á úrlausnir samkeppnismála og samkeppnisreglur. Kjarni málsins er einmitt sá að til þess hafa fyrirtæki alla möguleika. Þannig býðst þeim að kæra ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og fá þaðan úrskurð innan fárra vikna. Þá geta fyrirtæki leitað úrlausnar dómstóla um gildi úrskurðar nefndarinnar. 

Stjórnsýsla og skipulag samkeppnismála hér á landi er áþekkt því sem þekkist í öðrum ríkjum. Nefna má að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur hafnað því sjónarmiði að samskonar skipulag í Ítalíu brjóti gegn grundvallarréttindum.

Réttaröryggi fyrirtækja á þessu sviði er því tryggt til hins ítrasta. Í umræðu um réttindi fyrirtækja mega hins vegar ekki gleymast þeir almannahagsmunir sem samkeppnisreglum er ætlað að tryggja.

Má ráðleggja Alþingi?

Ögmundur finnur líka að því að Samkeppniseftirlitið vilji segja Alþingi fyrir um hvernig lög eigi að vera. Hér er rétt að minna á að samkvæmt samkeppnislögum ber Samkeppniseftirlitinu að benda stjórnvöldum á leiðir til að gera samkeppni virkari. Eftirlitinu ber einnig að vekja athygli ráðherra á því ef það telur að ákvæði laga eða stjórnvaldsfyrirmæla stríði gegn markmiði laganna eða torveldi samkeppni. Kveðið er sérstaklega á um þetta í 8. og 18. gr. laganna.

Hér er Samkeppniseftirlitið því að rækja það hlutverk sem löggjafinn sjálfur hefur falið því með lögum.

Að tala niður lögin og eftirlitið

Á meðal þess sem hrunið kenndi okkur öllum var að við ættum að leggja áherslu á festu við lagaframkvæmd, bera virðingu fyrir lögum og tryggja að eftirlitsstofnanir hefðu úr nægu fjármagni að moða.

Nú tíðkast það hins vegar, líkt og fyrir hrun, að tala niður til eftirlitsstofnana. Í vandlætingartón er talað um að koma þurfi böndum á „eftirlitsiðnaðinn“ og draga úr „eftirlitsbyrði“. Einhverra hluta vegna fennir hratt yfir sporin og lærdómurinn af hruninu virðist gleymdur. Sárast er að hagsmunir almennings gleymast í þessari orðræðu.

Það er sjálfsagður réttur allra að hafa skoðun á ákvörðunum og áherslum Samkeppniseftirlitsins á hverjum tíma. Niðurstöður Samkeppniseftirlitsins eru ekki óskeikular frekar en önnur mannanna verk. Það er hins vegar alvarlegt mál þegar ráðamenn sjálfir tala niður það regluverk og eftirlitsskipulag sem löggjafinn hefur ákveðið. Þá skulum við ekki reikna með því að fyrirtæki og einstaklingar telji sig þurfa að fara að lögum.

Páll Gunnar Pálsson

forstjóri Samkeppniseftirlitsins

 [Pistill þessi var birtur sem grein í DV þann 10. október 2014.]