8.1.2015 Páll Gunnar Pálsson

Af meltingarvegi efnahagslífsins

Pistill nr. 1/2015

Áherslur í samkeppnismálum

Pall_Gunnar_Pallsson_309x177pxSýn okkar á þýðingu samkeppni er mismunandi, allt eftir því af hvaða sjónarhóli er horft. Neytandi finnur stöðu samkeppninnar í buddu sinni, stjórnandi fyrirtækis sem er að koma undir sig fótunum skilur hversu mikilvægt er að verða ekki fyrir samkeppnishindrunum og stjórnanda markaðsráðandi fyrirtækis finnst gjarnan að samkeppnisreglur hindri áframhaldandi vöxt þess.

Oft gleymist hins vegar að samkeppni hefur víðtækari efnahagslega þýðingu. Samkeppni leiðir til aukinnar skilvirkni fyrirtækja og eykur líkur á að nýir keppinautar komi inn á markaði og veiti þeim sem eru óskilvirkari harða samkeppni. Samkeppni býr einnig í haginn fyrir nýsköpun sem elur af sér ný atvinnutækifæri.

Þessi meltingarvegur efnahagslífsins leiðir síðan af sér aukna framleiðni og efnahagsframfarir. Samhliða nýtur neytandinn betra verðs, gæða og úrvals.

Samkeppni hraðar einnig endurreisn atvinnulífsins eftir efnahagsáföll. Aðgerðir Samkeppniseftirlitsins eftir hrun hafa einmitt miðað að því að nýta samkeppnislögin til þess að hraða endurreisninni. Eftirlitið hefur fjallað ítarlega um þetta í ákvörðunum sínum og skýrslum. Þá hefur eftirlitið reglulega lagt mat á stöðu endurreisnarinnar, sbr. skýrslur eftirlitsins nr. 2/2011, 3/2012 og 3/2013.

Opnun markaða – aukin framleiðni

Nú, þegar líður frá hruni, hefur Samkeppniseftirlitið leitast við að skerpa áherslur sínar að nýju, með hliðsjón af efnahagsþróuninni. Í þeirri vinnu hefur eftirlitið leitað víða fanga, m.a. hjá fræðasamfélaginu og hagsmunaaðilum. Niðurstaða þessa endurmats er að leggja beri áherslu á opnun markaða og aukna framleiðni í innlenda þjónustugeiranum. Rétt er að skýra þetta aðeins nánar:

Samanburðartölur benda til þess að framleiðni í innlenda þjónustugeiranum sé miklu lakari en á hinum Norðurlöndunum. Þjónustugeiri er hér skilgreindur vítt og tekur til þjónustu og framleiðslu sem seld er innanlands.

Á sama tíma eru að verða breytingar á samsetningu þjóðarinnar og hlutfallslega færri standa á bak við verðmætasköpun. Ef velferðarkerfi okkar á að standast samanburð verðum við að auka framleiðni í efnahagskerfinu.

Eins og rökstutt var hér í upphafi er virk samkeppni heilladrýgsta meðalið við meltingartruflunum af þessu tagi. Þar gegnir opnun markaða lykilhlutverki. Með opnun markaða er m.a. átt við að greiða fyrir samkeppni erlendis frá með því að draga úr vernd innlendrar þjónustu og framleiðslu, sem oftast skilar engu nema óskilvirkara atvinnulífi.

Opnun markaða felst hér líka í því að hið opinbera opni fyrir samkeppni á sviðum sem það hefur rekið hingað til á eigin vegum. Að stjórnvöld nýti samkeppnishvata til þess að bæta og þróa opinberan rekstur.

Hér geta margir haft áhrif til batnaðar, stjórnvöld, neytendur og atvinnulífið. Nefna má eftirfarandi í því sambandi:

Samkeppnismat stjórnvalda

Frá árinu 2009 hefur Samkeppniseftirlitið mælst til þess að stjórnvöld hér á landi taki upp svokallað samkeppnismat. Samkeppnismat er einfalt staðlað ferli sem notað er við undirbúning eða endurskoðun laga og reglna eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla. Markmiðið með samkeppnismati er að koma auga á samkeppnishindranir sem felast í lögum og reglum. Komi slíkar hindranir í ljós ber að velja þá leið að settu marki sem síst er til þess fallin að skaða samkeppni.

Samkeppnismat af þessu tagi er ein aðferð til að opna markaði. Þessi aðferð er líka kjörin til þess að stilla reglubyrði í atvinnulífinu í eðlilegt hóf. Óhófleg reglubyrði á atvinnulífinu er nefnilega venjulegast óþörf samkeppnishindrun, þar á meðal hindrun fyrir ný eða smærri fyrirtæki að hefja samkeppni.

Þessi aðferð veldur því einnig að stjórnvöld nýta krafta samkeppninnar á fleiri sviðum í opinberum rekstri, s.s. í heilbrigðis- og menntamálum.

Bætt samkeppnishegðun

Fyrirtæki og samtök þeirra gegna líka lykilhlutverki ef árangur á að nást, því að þau geta stuðlað að bættri samkeppnishegðun í sínum röðum. Nefna má að fyrirtæki geta sett sér svokallaðar samkeppnisréttaráætlanir og samtök þeirra geta stutt við slíka vinnu með ýmsum hætti.

Í þessu sambandi má benda á að Viðskiptaráð Íslands, kauphöllin og Samtök atvinnulífsins gefa út leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja. Gagnlegt væri að fjalla þar um samkeppnishegðun fyrirtækja með ítarlegri hætti en nú er gert. Aðrir aðilar sem áhrif hafa á samkeppnisumhverfið, s.s. lífeyrissjóðir, mættu einnig huga að þessu.

Neytendavitund og fræðsla

Vel upplýstir neytendur geta haft mikil áhrif, því þeir geta skapað fyrirtækjum nauðsynlegan aga. Þess vegna er mikilvægt að huga að neytendafræðslu, ekki síst á skólastigi. Með því er hægt að þróa menningu þar sem neytendur taka upplýstar ákvarðanir og fyrirtæki þurfa að standa sig í stykkinu í keppninni um hylli þeirra.

Nauðsynlegt er þess vegna að samtök og félög sem bera hagsmuni neytenda fyrir brjósti stuðli að aukinni fræðslu og neytendavitund.

Að stöðva og koma í veg fyrir brot

Það hvílir svo á Samkeppniseftirlitinu að stöðva brot á samkeppnislögum og ryðja úr vegi samkeppnishindrunum. Rannsóknir sýna að ábati samfélagsins af því að stöðva ólögmætt samráð eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu getur verið gífurlegur.

Ef byggt er á nýlegum viðmiðum OECD um þetta er varlegt að áætla að íhlutun Samkeppniseftirlitsins í samráðs- og misnotkunarmálum á árunum 2005 til 2013 hafi skilað íslensku efnahagslífi samtals um 100 milljörðum króna, uppreiknað til verðlags í maí 2014. Það þýðir að jafnaði um 0,6 % af vergri landsframleiðslu ár hvert.

Af þessu er ljóst að festa í framkvæmd samkeppnislaga skiptir miklu fyrir efnahagslífið. Sömuleiðis er mikilvægt að Samkeppniseftirlitið tali fyrir markmiðum samkeppnislaga og leiðbeini fyrirtækjum og stjórnvöldum, í því skyni að koma í veg fyrir samkeppnishindranir áður en skaði hlýst af. Liður í því starfi er að eiga uppbyggileg samskipti við atvinnulíf, stjórnvöld og neytendur um þær áherslur sem lýst er hér að framan.