5.7.2019 Páll Gunnar Pálsson

Virkari samkeppni heima leiðir til meiri samkeppnishæfni út á við

Pistill nr. 10/2019

Í vor ákváðu samkeppniseftirlitin á Norðurlöndunum að kynna sameiginlega stefnu sína í meðferð og úrlausn samrunamála. Sú stefna hefur nú verið sett fram í sameiginlegri yfirlýsingu forstjóra samkeppniseftirlitanna í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi. Er yfirlýsingin kynnt á heimasíðum eftirlitanna og í fjölmiðlum á Norðurlöndunum og í Evrópu.

Með þessu eru norrænu samkeppniseftirlitin að leggja sitt af mörkum í umræðu um samruna fyrirtækja sem á sér stað víða í Evrópu nú um stundir. Tilefnið er einkum ógilding framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á samruna fyrirtækjanna Siemens og Alstom, en bæði fyrirtækin eru mikilvægir framleiðendur járnbrautarlesta og búnaðar á því sviði. Taldi framkvæmdastjórnin að samruninn hefði skaðað samkeppni og leitt til hærra verðs, viðskiptavinum og neytendum til tjóns.

Stjórnvöld í heimalöndum fyrirtækjanna tveggja, Frakklandi og Þýskalandi, tóku þessari niðurstöðu illa og hafa lagt fram tillögur um breytingar á samrunareglum Evrópusambandsins sem miða að því að leyfa í ríkara mæli stóra samruna evrópskra fyrirtækja. Telja stjórnvöld ríkjanna tveggja að fyrirtækin verði þannig betur í stakk búin til þess að bregðast við samkeppni kínverskra, bandarískra og annarra alþjóðlegra fyrirtækja.

Hér heima þekkjum við vel sambærilega umræðu um stöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendri samkeppni. Þannig hafa Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands talað fyrir því að Samkeppniseftirlitið breyti nálgun sinni við rannsókn samrunamála og leyfi í ríkara mæli samruna stærri íslenskra fyrirtækja. Með þeim hætti geti fyrirtækin notið meiri stærðarhagkvæmni sem geri þeim betur kleift að bregðast við samkeppni erlendis frá. Sömu rök voru lögð til grundvallar þegar afurðastöðvar í mjólkuriðnaði voru undanþegnar samrunaeftirliti með lögum frá Alþingi árið 2004.

Stefna norrænu samkeppniseftirlitanna

Stefna norrænna samkeppnisyfirvalda í samrunamálum er skýr: Festa í úrlausn samrunamála, í samræmi við núgildandi reglur á Evrópska efnahagssvæðinu, er besta leiðin til þess að tryggja samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum og evrópskra fyrirtækja gagnvart alþjóðlegum. Með þeim hætti verða fyrirtæki skilvirkari, vörur og þjónusta betri og nýsköpun meiri. Í virku samkeppnisumhverfi heima fyrir verða til öflug fyrirtæki sem eru í stakk búin að taka þátt í samkeppni annars staðar frá.

Fyrirtæki sem ná árangri í slíku umhverfi eru einmitt líklegust til þess að ná fótfestu á alþjóðlegum mörkuðum. Þetta þekkjum við Íslendingar, því flest af öflugustu fyrirtækjum Íslands hafa mótast og eflst í virku alþjóðlegu samkeppnisumhverfi, t.d. á vettvangi sjávarútvegs og tæknigreina.

Að mati norrænna samkeppnisyfirvalda myndi tilslökun í úrlausn samrunamála að líkindum hafa þveröfug áhrif. Hún myndi fela í sér frávik frá hagfræðilega viðurkenndum aðferðum, í átt til pólitískra úrlausna, sem fyrst og fremst myndu koma fáum fyrirtækjum til góða, án þess að tryggt væri að viðskiptavinir og neytendur myndu fá hlutdeild í ábatanum. Um leið yrði meiri óvissa um úrlausn mála og jafnræði fyrirtækja gagnvart lögunum. Með þessu væri vegið að grunnmarkmiðum EES-samningsins um sameiginlegan innri markað.

Það er einnig mat norrænu samkeppniseftirlitanna að tilslökun í samrunareglum á Evrópska efnahagssvæðinu myndi koma verst við smærri löndin í Evrópu, enda myndu stærri fyrirtæki stærstu landanna einkum njóta ábatans. Það er því ekki að undra að ráðherrar ríkisstjórna Norðurlandanna sem eru aðilar að Evrópusambandinu, eru á meðal þeirra sem hafa talað gegn hugmyndum franskra og þýskra stjórnvalda um tilslökun í samrunaeftirliti.

Um þessar mundir er haldið upp á aldarfjórðungs afmæli EES-samningsins. Íslendingar hafa notið þess að með EES-samningnum voru teknar upp sambærilegar samkeppnisreglur og gilda annars staðar á Evrópska efnahagsvæðinu. Þetta felur m.a. í sér að Samkeppniseftirlitið beitir sambærilegum aðferðum og leggur sambærilegt mat á samruna fyrirtækja og evrópsk samkeppniseftirlit gera. Þá nýtur Samkeppniseftirlitið þess að taka þátt í öflugu samstarfi norrænna samkeppnisyfirvalda.

Allt þetta stuðlar að aukninni samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Yfirlýsing norrænu samkeppniseftirlitanna er aðgengileg á ensku á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins. Undir hana rita forstjórar viðkomandi eftirlita: Lars Sørgard, Noregi, Jakob Hald, Danmörku, Rikard Jermsten, Svíþjóð og Kirsi Leivo, Finnlandi, auk undirritaðs.

Páll Gunnar Pálsson,

forstjóri Samkeppniseftirlitsins

[Pistill þessi var birtist sem grein í Kjarnanum þann 5. júlí 2019.]