18.12.2014

Verulegar breytingar á greiðslukortamarkaði Bankar og greiðslukortafyrirtæki gera sátt við Samkeppniseftirlitið

  • Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn, Borgun og Valitor hafa, hvert fyrirtæki fyrir sig, gert sáttir við Samkeppniseftirlitið vegna rannsóknar eftirlitsins á samkeppnishömlum á greiðslukortamarkaði. 
  • Með sáttunum viðurkenna framangreind fyrirtæki að tiltekin framkvæmd á greiðslukortamarkaði hafi ekki verið í samræmi við 10. og 12. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins 
  • Fallast fyrirtækin á að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir sem eru til þess fallnar að efla samkeppni. Jafnframt fallast þau á greiðslu sekta, samtals að fjárhæð 1.620 milljónir kr. 


Mál þetta hófst með kvörtun Kortaþjónustunnar ehf. sem beindist að útgefendum greiðslukorta (Arion banka, Íslandsbanka, Landsbankanum) og færsluhirðum (Borgun og Valitor). Taldi Kortaþjónustan að þessir aðilar hefðu gerst brotlegir við samkeppnislög með ýmsum aðgerðum sem fyrirtækið taldi að hefðu hindrað samkeppni á markaðnum. Hinn 8. mars árið 2013 birti Samkeppniseftirlitið aðilum frummat sitt í því skyni að auðvelda þeim að nýta andmælarétt sinn. Í kjölfarið óskuðu bankarnir, Borgun og Valitor, hver um sig, eftir því að heimild samkeppnislaga til að ljúka málum með sátt yrði nýtt.

Sáttir þessar leiða til jákvæðra grundvallarbreytinga á skipulagi og framkvæmd á greiðslukortamarkaði og munu að mati Samkeppniseftirlitsins verða til verulegra hagsbóta fyrir bæði neytendur og atvinnulífið. Breytingarnar fela m.a. í sér að hámark verður sett á milligjald sem er þóknun sem rennur til bankanna (sem útgefenda greiðslukorta) fyrir þjónustu sem bankar veita söluaðilum (m.a. verslunum) í tengslum við greiðslukortanotkun. Munu breytingarnar í heild leiða til lækkunar frá því sem nú er. Einnig leiða breytingarnar til aukins gagnsæis í gjaldtöku og er ætlað að hafa í för með sér aukna hagræðingu á þessu sviði. Jafnframt munu Valitor og Borgun skilja á milli útgáfuþjónustu og færsluhirðingar, en samrekstur þessara starfsþátta hefur falið í sér samkeppnishindranir gagnvart öðrum keppinautum á greiðslukortamarkaði. Þá er horfið frá því að keppinautar á viðskiptabankamarkaði eigi saman greiðslukortafyrirtæki, en það fyrirkomulag hefur ekki gefist vel í samkeppnislegu tilliti. Samhliða er tryggt að Valitor og Borgun þjónusti aðra en eigendur sína á jafnræðisgrundvelli.

Framangreindar sáttir leiða til breytinga á umgjörð fjármálamarkaðar. Það er hins vegar á ábyrgð og forræði viðkomandi banka og greiðslukortafyrirtækja að taka viðskiptaákvarðanir innan þeirrar umgjarðar, á grundvelli heilbrigðrar samkeppni.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins: „Samkeppniseftirlitið fagnar því að niðurstaða sé nú fengin í þessa umfangsmiklu rannsókn. Þær breytingar sem sáttirnar fela í sér eru mikilvægur áfangi í því að auka samkeppni á fjármálamarkaði, samfélaginu til hagsbóta. Aðgerðirnar eru jafnframt liður í áherslum sem Samkeppniseftirlitið hefur starfað eftir undangengin ár.“

1. Háttsemin

Þau brot sem um ræðir í sáttunum snúa að framkvæmd við ákvörðun milligjalda og við veitingu vildarpunkta, á árunum 2007 til og með 2009, sem fór gegn samkeppnislögum.

Færsluhirðar fá greidda þóknun frá söluaðilum sem þeir hafa gert þjónustusamning við og nota þeir þessar tekjur til þess m.a. að standa straum af milligjaldinu til bankanna. Þannig má segja að bankarnir innheimti þannig óbeint, þ.e. fyrir milligöngu færsluhirða, þóknanir af söluaðilum en jafnframt því innheimta bankarnir föst notendagjöld beint af korthöfum. Er framangreint fyrirkomulag viðhaft þar sem ekkert samningssamband er milli banka og söluaðila að þessu leyti.

Í sáttum Samkeppniseftirlitsins við Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankann felst að viðkomandi banki viðurkennir að sú framkvæmd við ákvörðun milligjalda, sem hófst í tíð forvera viðkomandi banka á sviði innanlandsstarfsemi og hélt áfram í starfsemi viðkomandi banka eftir fall forvera hans, fór gegn 10 gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES samningsins. Þau milligjöld sem um ræðir er fjárhæð þóknunar sem greidd er útgefendum greiðslukorta í tengslum við notkun greiðslukorta (VISA, Electron, MasterCard, og Maestro) í viðskiptum hjá íslenskum söluaðilum. Samkvæmt því sem fram kemur í sáttinni var Valitor (áður VISA Ísland – Greiðslumiðlun hf.) annars vegar og Borgun (áður Kreditkort hf.) hins vegar, falið að ákveða téð milligjöld fyrir hönd viðkomandi banka og fór sú framkvæmd gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES samningsins. Liggur hér til grundvallar að Valitor (áður VISA Ísland – Greiðslumiðlun hf.) og Borgun (áður Kreditkort hf.) teljast hafa verið samtök fyrirtækja í skilningi 12. gr. samkeppnislaga á þeim tíma sem umrætt brot átti sér stað.

Valitor annaðist vinnslu við útgáfu VISA kreditkorta samkvæmt samningum við bankana þrjá. Vildarpunktar eru fríðindi í einhverju formi til korthafa sem taka mið af umfangi viðskipta með kortin hjá tilteknum söluaðilum. Á grundvelli þessara samninga ákvað Valitor að kortahafar VISA kreditkorta nytu einungis vildarpunkta í viðskiptum við þá söluaðila sem gert höfðu samning um færsluhirðingu við Valitor.

Í sáttum Samkeppniseftirlitsins við Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankann felst jafnframt að viðkomandi banki viðurkennir að framkvæmd við veitingu vildarpunkta vegna notkunar íslenskra VISA kreditkorta hjá íslenskum söluaðilum, sem hófst í tíð forvera viðkomandi banka á sviði innanlandsstarfsemi og hélt áfram í starfsemi viðkomandi banka eftir fall forvera hans, hafi farið gegn samkeppnislögum. Viðurkenna aðilar að af samningum viðkomandi banka við Valitor (áður VISA Ísland – Greiðslumiðlun hf.) hafi leitt að Valitor hafi ákveðið viðskiptakjör og skilmála við veitingu vildarpunkta vegna notkunar VISA kreditkorta hjá íslenskum söluaðilum. Viðurkenna þeir þannig að framkvæmdin hafi farið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES samningsins.

Í sátt Samkeppniseftirlitsins við Valitor felst viðurkenning á því að með samningum VISA Ísland – Greiðslumiðlunar hf. (nú Valitor hf.) annars vegar við Landsbanka Íslands (nú Landsbankann hf.), Kaupþing banka (nú Arion banka hf.) og Glitni (nú Íslandsbanka hf.) hins vegar, hafi VISA Ísland - Greiðslumiðlun hf. (nú Valitor hf.) verið falið að ákveða umrædd milligjöld og vildarpunkta. Fór þessi framkvæmd gegn 12. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES samningsins.

Í sátt Samkeppniseftirlitsins við Borgun felst viðurkenning á því að með samningum Kreditkorts hf. (nú Borgunar hf.) annars vegar við Landsbanka Íslands (nú Landsbankann hf.), Kaupþing banka (nú Arion banka hf.) og Glitni (nú Íslandsbanka hf.) hins vegar, hafi Kreditkorti (nú Borgun) verið falið að ákveða umrædd milligjöld sem Borgun greiddi þessum útgefendum greiðslukorta í tengslum við notkun MasterCard, Maestro og Electron greiðslukorta. Samkvæmt sáttinni fór þessi framkvæmd gegn 12. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES samningsins. Brot Borgunar tók ekki til vildarpunkta.

2. Aðgerðir til þess að efla samkeppni

Sáttirnar kveða á um ýmsar aðgerðir og breytingar í tengslum við starfsemi og skipulag á greiðslukortamarkaði. Megintilgangur þessa er að tryggja samkeppnislegt jafnræði keppinauta á sviði færsluhirðingar og greiðslukortaútgáfu, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum í starfsemi fjármálafyrirtækja á greiðslukortamarkaði og að öðru leyti stuðla að virkari samkeppni á sviði kortaútgáfu og færsluhirðingar.

Breytt eignarhald og bann við samræmingu viðskiptakjara og skilmála

Valitor og Borgun hafa verið í eigu keppinauta á fjármálamarkaði. Valitor í eigu Arion banka og Landsbankans og Borgun í eigu Íslandsbanka og Landsbankans. Þetta eignarhald hefur verið óheppilegt í samkeppnislegu tilliti. Sáttirnar breyta þessu til frambúðar og verður óheimilt að hvort þessara greiðslukortafyrirtækja verði í eigu tveggja eða fleiri viðskiptabanka. Fyrir liggur að Landsbankinn hefur þegar selt eignarhlut sinn í Valitor og Borgun.

Með sáttunum eru einnig sett takmarkandi skilyrði er lúta að aðkomu eiganda að starfsemi Valitors eða Borgunar þegar eigandi er viðskiptabanki. Þannig er kveðið á um að verði Valitor eða Borgun, hvort fyrirtæki fyrir sig, í eigu eins banka gildi tiltekin skilyrði gagnvart viðkomandi eiganda sem ætlað er að tryggja viðskiptalegt jafnræði kortaútgefenda (þ.m.t. allra banka og sparisjóða) hvað varðar þjónustu Valitors og Borgunar.

Framangreindum skilyrðum er ásamt öðrum skilyrðum ætlað að draga úr sameiginlegum hagsmunahvötum í viðskiptum banka og færsluhirða og stuðla að því að samningagerð, milli bankanna annars vegar, og kortafyrirtækjanna (Valitors og Borgunar) hins vegar, eigi sér eingöngu stað á almennum viðskiptalegum grundvelli. Með aðskilnaði eignarhalds er einnig dregið úr sameiginlegum hagsmunum bankanna þriggja á markaðnum fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu.

Bann við samræmingu viðskiptakjara og skilmála

Í sáttunum er með skýrum hætti lagt bann við beinni og óbeinni samræmingu milli banka og færsluhirða á milligjöldum og öðrum þóknunum og jafnframt lagt bann við beinni og óbeinni samræmingu skilmála eða viðskiptakjara banka og kortafyrirtækja gagnvart korthöfum.

Lækkun milligjalda

Sáttirnar taka til starfsemi sem tengist vörumerkjum VISA og MasterCard sem eru langsamlega útbreiddustu greiðslukortavörumerkin á Íslandi. Í ljósi umræddra brota er talið nauðsynlegt að mæla fyrir um lækkun milligjalda.

Í samræmi m.a. við það er með sáttunum kveðið á um að hámarksmilligjöld sem greidd eru útgefendum vegna notkunar neytendagreiðslukorta skuli ekki vera hærri en 0,20% af virði hverrar færslu í tilviki debetkorta og ekki hærri en 0,60% í tilviki kreditkorta. Taka þessi hámörk til viðskipta hjá íslenskum söluaðilum þegar greitt er með VISA, Electron, MasterCard og Maestro greiðslukortum. Við gerð sáttanna að þessu leyti hefur m.a. verið litið til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í Evrópu á sviði samkeppnismála er tengjast samkeppnishömlum á greiðslukortamarkaði.

Á rannsóknartímabili málsins var algengt að milligjöld vegna debetkorta væru um 0,35% af veltu en verða að hámarki samkvæmt sáttinni 0,20% af veltu. Algeng milligjöld vegna kreditkortanotkunar voru á tímabilinu 0,75-0,80% af veltu. Verða þessi milligjöld til íslenskra útgefenda að hámarki 0,60% af veltu samkvæmt sáttinni. Hámörkin taka til allra viðskipta með neytendagreiðslukortum hjá íslenskum söluaðilum, óháð því hvort greitt er á sölustað, með boðgreiðslum, gegnum internetið, með farsíma eða með öðrum snertilausum hætti. Samkvæmt sáttunum ganga þessi hámörk í gildi 1. maí 2015. þ.a. aðilum er veittur nokkur aðlögunartími.

Í sáttum Samkeppniseftirlitsins við Valitor og Borgun er ákvæði þar sem þessir aðilar skuldbinda sig til þess að lækka þóknanir sínar gagnvart söluaðilum til samræmis við þá lækkun milligjalda sem leiðir af framangreindu hámarki milligjalda.

Hagræðing og gagnsæi

Í sáttunum við bankana er kveðið á um að þeir skuli, eftir því sem kostur er, hagræða í þeim rekstri sínum sem tengist kortaútgáfu og þjónustu við korthafa með það að markmiði að veita sem hagkvæmasta þjónustu á þessu sviði og takmarka eins og unnt er hækkanir þjónustugjalda gagnvart korthöfum. Þá skuldbinda bankarnir sig ennfremur til að tryggja að breytingar á þjónustugjöldum eða viðskiptakjörum komi fram með gagnsæjum hætti í verðskrá og skilmálum bankanna. Skal korthöfum vera tilkynnt um slíkar breytingar með skýrum hætti.

Frá undirritun hverrar sáttar um sig og þar til sex mánuðir eru liðnir frá þeirri lækkun milligjalda sem mælt er fyrir um með sáttunum skuldbinda bankarnir sig til að taka ekki upp ný gjöld eða hækka gjöld gagnvart korthöfum, nema slíkum hækkunum verði ekki mætt með hagræðingu í rekstri og þær megi með sannanlegum hætti rekja til ytri aðstæðna, svo sem hækkana frá birgjum eða vaxtahækkana. Þessi skuldbinding takmarkar þó ekki heimild bankanna til að markaðssetja nýja vöru eða þjónustu sem gjald yrði tekið fyrir

Fullur aðskilnaður innan kortafyrirtækjanna

Valitor og Borgun eru í lykilstöðu á greiðslukortamarkaði hérlendis. Byggist sú staða m.a. á aðalleyfishaldi þeirra á vörumerkjum VISA og MasterCard á Íslandi. Þá annast þessi fyrirtæki framkvæmd kreditkortaútgáfu fyrir alla banka og sparisjóði á Íslandi og njóta jafnframt sterkrar stöðu á sviði færsluhirðingar hérlendis. Í sáttum Samkeppniseftirlitsins við Borgun og Valitor er kveðið á um skýran aðskilnað milli færsluhirðingarstarfsemi og kortaútgáfustarfsemi þessara fyrirtækja. Fyrirtækin eru samkvæmt sáttunum bundin ítarlegum skilyrðum sem ætlað er að tryggja aðskilnaðinn og vinna þar með gegn því að fyrirtækin geti nýtt stöðu sína á sviði kortaútgáfustarfsemi til þess að skapa sér óeðlilegt samkeppnisforskot gagnvart keppinautum sínum á sviði færsluhirðingar. Þannig er tryggt að Valitor, Borgun og keppinautar þeirra á sviði færsluhirðingar eigi jafna möguleika á að keppa um viðskipti á markaðnum fyrir færsluhirðingu. Við útfærslu á aðskilnaðinum hefur þess verið gætt að viðkomandi fyrirtæki geti eftir sem áður nýtt stærðarhagkvæmni sína og haldið áfram að þróa og byggja upp starfsemi sína.

3. Viðurlög

Sökum umræddra brota og í því skyni að skapa varnaðaráhrif hefur Samkeppniseftirlitið lagt sektir á félögin sem samanlagt nema 1.620 milljónum króna. Sekt Íslandsbanka nemur 380 milljónum króna, sekt Arion banka nemur 450 milljónum króna, sekt Landsbankans nemur 450 milljónum króna, sekt Valitors nemur 220 milljónum króna og sekt Borgunar nemur 120 milljónum króna.

Við ákvörðun sekta naut Íslandsbanki sérstakrar ívilnunar á grundvelli þess að hann lauk sátt við Samkeppniseftirlitið fyrstur málsaðila. Er almennt séð mikilvægt að fyrirtæki sem hafa sérstakt frumkvæði að gera jákvæðar breytingar á markaði og viðurkenna brot njóti sérstakar lækkunar á sektum. Þessi ríki samstarfsvilji Íslandsbanka hafði mjög jákvæð áhrif á framgang og niðurstöðu málsins.

Við ákvörðun sekta var almennt litið til ýmissa málsbóta, m.a. þess að allir hafa framangreindir aðilar fallist á að hlíta viðurhlutamiklum fyrirmælum sem lúta að breytingum á skipulagi á þeim markaði sem um ræðir og einnig var m.a. litið til góðs samstarfsvilja allra viðkomandi aðila sem stytt hefur rannsókn og málsmeðferð samkeppnisyfirvalda.

Af hálfu fyrirtækjanna er lögð á það áhersla að í málinu sé ekkert sem bendi til þess að starfsmenn þeirra hafi verið í vondri trú um lögmæti þeirra samninga sem gerðir voru við færsluhirða. Í málinu hafi ekki komið fram gögn eða upplýsingar sem benda til hins gagnstæða.

4. Birting ákvörðunar

Samkeppniseftirlitið mun í upphafi næsta árs birta ákvörðun í málinu, þar sem ítarlegri grein verður gerð fyrir málinu. 

Uppfært: Sjá frétt og ákvörðun sem síðar var gefin út.