30.4.2015

Breytingar á greiðslukortamarkaði til hagsbóta fyrir neytendur og atvinnulíf

Hámörk milligjalda taka gildi 1. maí - Aðhald neytenda og söluaðila mikilvægt

Þann 18. desember sl. greindi Samkeppniseftirlitið frá því á heimasíðu sinni að Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn, Borgun og Valitor hefðu hver fyrir sig gert sátt við Samkeppniseftirlitið vegna rannsóknar þess á samkeppnishömlum á greiðslukortamarkaði. Í ákvörðun nr. 8/2015 sem birt hefur verið á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins, er gerð ítarleg grein lyktum málsins.

Fyrrgreindum sáttum er ætlað að leiða til mikilvægra breytinga á greiðslukortamarkaði. Megintilgangurinn með þeim er að stuðla að aukinni hagkvæmni í greiðslukortaþjónustu með því að skapa grundvöll fyrir sterkara aðhald viðskiptavina, stuðla að samkeppnislegu jafnræði keppinauta á sviði færsluhirðingar og greiðslukortaútgáfu, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum í starfsemi fjármálafyrirtækja á greiðslukortamarkaði, og að öðru leyti stuðla að virkari samkeppni á sviði kortaútgáfu og færsluhirðingar.

Mikilvægt er að söluaðilar og neytendur séu upplýstir um breytingarnar og veiti nauðsynlegt aðhald. Hér á eftir eru helstu breytingar rifjaðar upp og gerð grein fyrir stöðunni á innleiðingu sáttanna.

Hámörk milligjalda taka gildi 1. maí – lækkun milligjalda

Þann 1. maí taka gildi hámörk milligjalda, en þau taka til viðskipta hjá íslenskum söluaðilum þegar greitt er með íslenskum VISA, Electron, MasterCard og Maestro neytendagreiðslukortum. Hámörkin eiga við óháð því hvort greitt er á sölustað, með boðgreiðslum, gegnum internetið, með farsíma eða með öðrum snertilausum hætti. Hámörkin eru 0,20% í tilviki debetkorta og 0,60% í tilviki kreditkorta. Miðast þessi hámörk við virði hverrar færslu þannig að ekki er um meðaltal milligjalda að ræða.

Útgefendum er þannig óheimilt að taka við hærri milligjöldum eftir að ákvæðið hefur tekið gildi. Hefur milligjaldatöflum alþjóðlegra kortakerfa framangreindra korta verið breytt nýverið, til samræmis við sáttirnar. Hinar alþjóðlegu töflur gilda ef ekki er til staðar tvíhliða samningur milli kortaútgefanda og færsluhirðis.

Í heild leiða framangreind hámörk til lækkunar á milligjöldum og þar af leiðandi til lækkunar á þeirri þóknun sem færsluhirðar setja upp gagnvart söluaðilum. Í sáttunum við Valitor og Borgun er ákvæði þar sem þessir aðilar skuldbinda sig til þess að lækka þóknanir sínar gagnvart söluaðilum til samræmis við lækkun milligjalda. Lægri tilkostnaður söluaðila vegna þessa ætti að koma bæði fyrirtækjum og neytendum til góða með því að stuðla að öflugra atvinnulífi og lægra vöruverði.

Við gerð sáttanna að þessu leyti hefur m.a. verið litið til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í Evrópu á sviði samkeppnismála er tengjast samkeppnishömlum á greiðslukortamarkaði. Með innleiðingu hámarkanna er stuðlað að aðlögun að ákvæðum reglugerðar ESB um milligjöld sem búast má við að taki gildi hér á landi innan tíðar á grundvelli skuldbindinga Íslands skv. EES-samningnum.

Fjallað er um hámörk milligjalda í kafla 8.2 (bls. 41-47) í ákvörðuninni og í skýringum við ákvæði sáttanna á bls. 51-52 og 59-61.

Þjónustugjöld þurfa að vera sýnileg og takmarka þarf hækkanir eins og unnt er

Í sáttunum við bankana er kveðið á um að þeir skuli, eftir því sem kostur er, hagræða í þeim rekstri sínum sem tengist kortaútgáfu og þjónustu við korthafa með það að markmiði að veita sem hagkvæmasta þjónustu á þessu sviði og takmarka eins og unnt er hækkanir þjónustugjalda gagnvart korthöfum.

Þá skuldbinda bankarnir sig ennfremur til að tryggja að breytingar á þjónustugjöldum eða viðskiptakjörum komi fram með gagnsæjum hætti í verðskrá og skilmálum bankanna. Skal korthöfum vera tilkynnt um slíkar breytingar með skýrum hætti. Er þessu ætlað að skapa aðhald viðskiptavina.

Í sex mánuði frá því að hámörk milligjalda ganga í gildi eru sérstakar takmarkanir settar á hækkun og innleiðingu ýmissa þóknana gagnvart korthöfum. Nánar er fjallað um þetta á blaðsíðu 52-53. í ákvörðuninni.

Aðhald neytenda og fyrirtækja er mikilvægt

Til að sem mestur ávinningur hljótist af framangreindum breytingum fyrir samfélagið er brýnt að söluaðilar sýni viðsemjendum sínum aðhald í samningum um færsluhirðingu. Neytendur og hagsmunasamtök þeirra þurfa einnig að sýna aðhald til þess að tryggja að lækkun milligjalda og aðrar aðgerðir samkvæmt sáttunum skili sér til þeirra.

Jafnframt er eðlilegt að söluaðilar séu vakandi fyrir samspili þóknana sem þeir greiða færsluhirðum og tilhögun fjármögnunar banka og sparisjóða á kreditkortaveltu gagnvart færsluhirðum. Þannig kunna boðuð dagleg uppgjör banka og sparisjóða á fjárhæð kreditkortaviðskipta gagnvart færsluhirðum að skapa hinum síðarnefndu svigrúm til að lækka þóknun sína gagnvart söluaðilum þegar hámarksmilligjöld ganga í gildi. Nánar er fjallað um þetta í kafla 8.4 á bls. 49-50 í ákvörðuninni.

Upplýst aðhald söluaðila og neytenda (svo og árvekni hagsmunasamtaka þeirra) skiptir máli við innleiðingu framangreindra breytinga.

Aðrar aðgerðir til þess að tryggja samkeppni

Til viðbótar framangreindu fela sáttirnar m.a. í sér eftirfarandi breytingar á greiðslukortamarkaði:

  • Breytt eignarhald á greiðslukortafyrirtækjum.
  • Áskilnað um viðskiptalegt jafnræði kortaútgefenda gagnvart Valitor og Borgun, þannig að eignarhald viðskiptabanka á þeim feli ekki í sér samkeppnishindranir.
  • Bann við samræmingu viðskipta viðskiptakjara og skilmála.
  • Skilyrði um fullan aðskilnað innan kortafyrirtækjanna milli annars vegar færsluhirðingar og hins vegar útgáfustarfsemi.

Hvert skal beina kvörtunum?

Öllum er frjálst að hafa samband við Samkeppniseftirlitið vegna kvartana sem tengjast framkvæmd sáttanna.

Samkvæmt sáttunum skal Valitor tilnefna óháðan kunnáttumann sem hefur eftirlit með því að ákvæði viðkomandi sáttar gangi eftir. Sami kunnáttumaður fylgir jafnframt eftir skuldbindingum Arion banka á meðan bankinn er á meðal eigenda. Á sama hátt skal Borgun tilnefna kunnáttumann sem fylgir eftir þeim skilyrðum sem Borgun og Íslandsbanki hafa undirgengist. Nánar er kveðið á um verkefni kunnáttumanna í skýringum við sáttirnar á bls. 66-67 og einnig á bls. 57 í ákvörðuninni. Kvartendur geta haft samband við umrædda kunnáttumenn, auk þess sem Samkeppniseftirlitið getur beint því til þeirra að skoða kvartanir og ábendingar. Telji óháður kunnáttumaður að sátt hafi verið brotin ber honum að greina Samkeppniseftirlitinu frá því.

Nánari upplýsingar um málið má finna í ákvörðun nr. 8/2015 og frétt Samkeppniseftirlitsins frá 18. desember 2014.