Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Kaup Myndgreiningar ehf. á Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. og Íslenskri myndgreiningu ehf.

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 35/2020
  • Dagsetning: 26/8/2020
  • Fyrirtæki:
    • Myndgreining ehf.
    • Læknisfræðileg myndgreining ehf.
    • Íslensk myndgreining ehf.
  • Atvinnuvegir:
    • Heilbrigðis- og félagsmál
    • Þjónusta sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið hefur haft til skoðunar kaup nýstofnaðs félags, Myndgreiningar ehf., á Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. og Íslenskri myndgreiningu ehf. Starfsemi samrunaaðila felst í að veita læknisfræðilega myndgreiningarþjónustu en undir hana falla m.a. tölvusneiðmyndarannsóknir, röntgenrannsóknir, ómun, segulómun og skyggnirannsóknir. Læknisfræðileg myndgreining býður upp á fjölbreyttar rannsóknir í myndgreiningarþjónustu auk þess að bjóða upp á sérhæfðar kransæðarannsóknir og rekur þrjár starfsstöðvar. Íslensk myndgreining sinnir hvers kyns almennum myndgreiningarrannsóknum en meginþungi starfsemi félagsins snýr að stoðkerfisrannsóknum. Íslensk myndgreining rekur eina starfsstöð.

    Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að markaður sem mál þetta varðar sé markaður fyrir myndgreiningu utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu. Með fyrirhuguðum samruna hefði keppinautum á skilgreindum markaði málsins fækkað úr þremur í tvo með alvarlegum skaðlegum áhrifum fyrir bæði greiðendur og notendur þjónustunnar. Með vísan til ítarlegrar umfjöllunar í ákvörðun er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að viðkomandi samruni leiði til þess að við samrunann myndast eða styrkist markaðsráðandi staða, eða samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, sbr. 17. gr. c samkeppnislaga.

    Þá er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að kaupendastyrkur Sjúkratrygginga Íslands muni ekki vega upp á móti þeirri samþjöppun og efnahagslega styrk sem sameinað félag mun hafa. Eins og leiða má af hárri markaðshlutdeild samrunaaðila, aðgangshindrunum að markaðnum og lítilli umframafkastagetu annarra aðila myndu samrunaaðilar búa yfir töluverðum markaðsstyrk í samningum við Sjúkratryggingar Íslands hefði samruninn orðið að veruleika. Samrunaaðilar hafa fært rök fyrir því að hagræðing í rekstri hins sameinaða félags komi til með að skila ávinningi til neytanda í formi betri tækni og þjónustu. Það er niðurstaða rannsóknarinnar að samrunaaðilar hafi ekki sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að ábati neytenda vegna þeirrar hagræðingar sem hlytist af samrunanum vegi þyngra en þær samkeppnishömlur sem samruninn hefði í för með sér.

    Að mati Samkeppnieftirlitsins er mjög mikilvægt að með beitingu samkeppnislaga sé samkeppni á þessu sviði vernduð. Hefði samruni sá sem til skoðunar var í þessu máli gengið eftir, liggur fyrir að samkeppni í myndgreiningarþjónustu hefði orðið fyrir miklum skaða.  

Staða máls

Áfrýunarnefnd samkeppnismála

Úrskurðir