5.12.2022

Héraðsdómur Reykjavíkur staðfestir úrskurð um ógildingu samruna á markaði fyrir myndgreiningarþjónustu

  • Heradsdomur

Þann 11. mars 2021 staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þar sem ógiltur var samruni Íslenskrar myndgreiningar ehf. og Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. Samrunaaðilar skutu úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla og með dómi sínum í dag staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurð áfrýjunarnefndar.

Starfsemi samrunaaðila felst í því að veita læknisfræðilega myndgreiningarþjónustu, en undir hana falla m.a. tölvusneiðmyndarannsóknir, röntgenrannsóknir, ómun, segulómun og skyggnirannsóknir. Starfsemin hefur mikla þýðingu fyrir heilbrigðisþjónustu á landinu. Samkeppnisröskun á þessu sviði getur verið til þess fallin að draga úr gæðum og hækka kostnað við heilbrigðisþjónustu.

Með samrunanum hefði keppinautum á markaðnum fækkað úr þremur í tvo og samanlögð markaðshlutdeild samrunaaðila orðið á bilinu 80-100%, eftir því um hvaða þjónustuþætti er að ræða.

Í málinu var deilt um nokkur atriði sem rétt er að víkja nánar að:

Samrunaaðilar byggðu í fyrsta lagi á því að samrunareglur samkeppnislaga næðu ekki til starfsemi samrunaaðila, sem grundvallast að langmestu leyti á samningi við Sjúkratryggingar Íslands um heilbrigðisþjónustu. Í dóminum er staðfest sú niðurstaða Samkeppniseftirlitsins og áfrýjunarnefndar að samrunareglur samkeppnislaga eigi við um samruna fyrirtækja á þessu sviði, enda sé sérstaklega tekið fram í lögskýringargögnum með lögum um sjúkratryggingar að samkeppnislögum sé ætlað að gilda um markaðshegðun viðsemjenda Sjúkratrygginga Íslands.

Samrunaaðilar byggðu í öðru lagi á því að Samkeppniseftirlitið hefði ekki tekið ákvörðun í málinu innan lögmæltra fresta og því hafi skort heimild til að ógilda samrunann. Var þessi afstaða samrunaaðila einkum reist á því að á meðan Samkeppniseftirlitið hafði stjórnsýslumálið til meðferðar hefðu verið gerðar breytingar á ákvæðum samkeppnislaga um fresti til að rannsaka samruna. Héraðsdómur féllst ekki á þetta.

Samrunaaðilar byggðu í þriðja lagi á því að markaður málsins væri ekki rétt skilgreindur. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var lagt til grundvallar að landfræðilegur markaður málsins væri höfuðborgarsvæðið en samrunaaðilar voru því ósammála og byggðu á því að landið allt væri einn markaður. Þá byggðu samrunaaðilar á því að myndgreiningarþjónusta sem veitt er á sjúkrahúsum ætti að teljast til markaða málsins. Áfrýjunarnefnd féllst á rök Samkeppniseftirlitsins að þessu leyti, einkum með vísan til þess að notendur þjónustunnar sækja almennt ekki þjónustuna á milli landssvæða og að takmörkuð staðganga væri á milli myndgreiningarþjónustu sem er veitt innan og utan sjúkrahúsa. Héraðsdómur var þessu sammála.

Héraðsdómur staðfesti að lokum það mat samkeppnisyfirvalda að við samrunann hefði markaðsráðandi staða myndast eða styrkst, eða samkeppni raskast að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Hefði það haft skaðleg áhrif á þá samkeppni sem fyrir er á hinum skilgreinda markaði málsins. Í því samhengi var litið til fækkunar keppinauta úr þremur í tvo og hárrar markaðshlutdeildar samrunaaðila.