Breytingar á verðmerkingum á kjötvörum
Til hagsbóta fyrir neytendur
Pistillinn í PDF skjali - Opnast í nýjum glugga
Upplýsingasíða um breytingar á verðmerkingum
Þann 1. mars nk. taka gildi breytingar á verðmerkingum á ýmsum kjötvörum í matvöruverslunum. Í breytingunum felst að kjötvinnslufyrirtæki hætta að forverðmerkja fyrir matvöruverslanir pakkningar í staðlaðri þyngd, þ. á m. flestar tegundir af pylsum, tilbúnum réttum og flestar áleggstegundir. Með forverðmerkingu er átt við það þegar kjötvinnslufyrirtæki eða aðrir birgjar merkja vörur með smásöluverði sem verslun notast við og verðið því hluti af þeim upplýsingum sem koma fram á merkingu birgjans.
Þann 1. júní nk. mun hið sama gilda um kjötvörur sem ekki eru í staðlaðri þyngd, s.s. lambalæri, kjúklingabringur í bakka o.fl. Frá þessu tímamarki mun forverðmerking kjötvara því heyra sögunni til að mestu leyti.
Þessar breytingar eru liður í því að binda enda á og vinna gegn brotum sem Hagar og tiltekin kjötvinnslufyrirtæki urðu uppvís að. Rétt er að rekja í stuttu máli tildrög þessa.
Samskipti að baki forverðmerkingum fólu í sér samkeppnislagabrot
Í ákvörðun nr. 33/2010 er greint frá samkeppnishömlum í tengslum við forverðmerkingar á kjötvörum. Ákvörðunin er afrakstur rannsóknar sem hófst í framhaldi af skýrslu sem Samkeppniseftirlitið birti á miðju ári 2008, um viðskiptasamninga birgja og matvöruverslana. Þar voru færð fyrir því rök að forverðmerkingar hömluðu samkeppni.
Rannsókn málsins leiddi í ljós samkeppnishamlandi samvinnu um verð, annars vegar verslana Bónuss í eigu Haga, og hins vegar sex kjötvinnslufyrirtækja. Þetta gerðu fyrirtækin með tvíhliða samningum eða samstilltum aðgerðum í tengslum við smásöluverðlagningu á kjöti og unnum kjötvörum sem kjötvinnslufyrirtækin hafa annast (svokölluð forverðmerking).
Ákvæði samkeppnislaga banna framleiðendum og smásölum að hafa með sér samráð um endursöluverð (lóðrétt verðsamráð). Tölvupóstar og önnur gögn sýndu að annars vegar Bónus og hins vegar kjötvinnslufyrirtækin sex (hvert fyrir sig) höfðu nána samvinnu um smásöluverð í Bónus og afslætti frá því. Í flestum tilfellum voru samskiptin þannig að kjötvinnslufyrirtækin sendu Bónusi tillögu að smásöluverði á tilteknum vörum og afslátt frá því verði. Brugðust þá forsvarsmenn Bónuss við með því að samþykkja tilboðið, synja því eða setja fram nýja tillögu.
Í þessum samskiptum fólst því ekki aðeins beiðni Bónuss um verðmerkingar kjötbirgjanna á vörum heldur reyndist samvinnan mun umfangsmeiri. Voru brotin til þess fallin að takmarka samkeppni og valda þannig neytendum tjóni.
Í mörgum tilvikum voru þessir aðilar að semja eða fjalla um afslætti frá verði sem aldrei stóð til að bjóða neytendum í viðkomandi verslunum.
Hagar og kjötvinnslufyrirtæki óskuðu eftir sátt
Þegar Samkeppniseftirlitið hafði kynnt umræddum fyrirtækjum frumniðurstöður sínar sneru þau sér hvert í sínu lagi til Samkeppniseftirlitsins og óskuðu eftir því að ljúka málinu með sátt. Á þeim grundvelli nýtti Samkeppniseftirlitið heimild samkeppnislaga og gerði sátt við Haga og sex kjötvinnslufyrirtæki. Samtals greiddu þau 405 m.kr. í stjórnvaldssektir.
Önnur tvö kjötvinnslufyrirtæki óskuðu eftir sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið en þær viðræður skiluðu ekki niðurstöðu. Þáttur þessara fyrirtækja er því enn til rannsóknar.
Mælt fyrir um breytingar neytendum til hagsbóta
Til þess að vinna gegn frekari brotum og skapa skilyrði fyrir aukinni samkeppni féllust umrædd fyrirtæki á að hlíta tilteknum fyrirmælum og skilyrðum.
Eitt þessara skilyrða er að Hagar muni hætta að taka við forverðmerktum kjötvörum innan þeirra tímamarka sem tilgreind voru í upphafi pistilsins. Sömuleiðis hætta viðkomandi kjötvinnslufyrirtæki að merkja smásöluverð fyrir sína viðskiptavini. Breytingin hefur því áhrif á öll kjötvinnslufyrirtæki sem eiga viðskipti við Haga og á aðrar matvöruverslanir en þær sem Hagar reka, sem kaupa vörur af umræddum kjötvinnslufyrirtækjum.
Samkvæmt ákvörðuninni er Högum einnig óheimilt að veita afslætti á kjötvörum nema um raunlækkun sé að ræða frá gildandi smásöluverði. Ljóst er að það er bæði samkeppnishamlandi og villandi gagnvart neytendum að gefa til kynna að vara sé á tilboði (t.d. 10% afslætti) þegar í raun er aðeins verið að selja hana á því verði sem almennt gildir í viðkomandi verslun. Með ákvörðuninni eiga þessir viðskiptahættir að heyra sögunni til.
Mikilvægt að breytingarnar takist vel
Samkeppniseftirlitið hefur lagt áherslu á að vel takist til um breytingarnar. Ábyrgðin á því hvílir á þeim fyrirtækjum sem í hlut eiga. Gera verður ráð fyrir því að þau leitist við að útfæra breytingarnar þannig að neytendur verði ekki fyrir óþægindum. Þrátt fyrir þetta hefur Samkeppniseftirlitið fengið ábendingar frá óánægðum neytendum um verðmerkingar í aðdraganda breytinganna. Samkeppniseftirlitið hefur komið þessum ábendingum á framfæri við Neytendastofu.
Samkeppniseftirlitið hefur einnig mælst til þess við hagsmunasamtök fyrirtækja og neytenda og stjórnvöld á þessu sviði að fylgja breytingunum eftir með hagsmuni neytenda að leiðarljósi.
Samkeppniseftirlitið væntir þess að neytendur þurfi þess vegna ekki að verða fyrir óþægindum vegna breytinganna. Þvert á móti eiga þær að leiða til aukinnar samkeppni milli verslana og heilbrigðari samkeppnisaðstæðna til lengri tíma litið.
Upplýsingasíða opnar
Í tengslum við framangreindar breytingar opnar Samkeppniseftirlitið í dag upplýsingasíðu á vef sínum, www.samkeppni.is, þar sem finna má algengar spurningar frá neytendum og fyrirtækjum og svör við þeim. Upplýsingasíðan verður uppfærð eftir því sem ástæða er til. Spurningar og svör sem nú er að finna á síðunni fylgja einnig hér á eftir.
Páll Gunnar Pálsson
forstjóri Samkeppniseftirlitsins