31.1.2020

Landsréttur hafnar kröfum Eimskips

Með úrskurði 30. janúar 2020 hafnaði Landsréttur kröfum Eimskips í máli sem fyrirtækið hefur rekið í því skyni að dómstólar stöðvi rannsókn Samkeppniseftirlitsins á ætluðu ólögmætu samráði fyrirtækisins við Samskip. Í málinu fyrir Landsrétti krafðist Eimskip þess að aflétt yrði haldi sem Samkeppniseftirlitið hefði lagt á gögn fyrirtækisins við húsleitir hjá því og að afritum gagnanna yrði eytt.

Forsaga málsins er að þann 1. júlí 2019 krafðist Eimskip þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði um það annars vegar að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á ætluðu ólögmætu samráði fyrirtækisins við Samskip væri ólögmæt og að henni skyldi hætt og hins vegar að aflétt yrði haldi sem hafði verið lagt á gögn fyrirtækisins við húsleitir hjá því 10. desember 2013 og 4. júní 2014 og að afritum gagnanna yrði eytt.

Til stuðnings kröfum sínum hefur Eimskip byggt m.a. á því að rannsókn málsins hafi tekið óeðlilega langan tíma, að Samkeppniseftirlitið hafi blekkt dómstóla, að haldlagning gagna í húsleitunum hafi verið ólögmæt og að starfsmenn eftirlitsins séu vanhæfir þar sem þeir hafi tekið þátt í rannsókn lögreglu á þætti stjórnenda Eimskips í hinu ætlaða samráði. Einnig hafi Samkeppniseftirlitið brotið gegn mannréttindum Eimskips, m.a. þar sem eftirlitið hefði haldið áfram rannsókn málsins eftir að hafa áður fellt hana niður. Samkeppniseftirlitið hefur fyrir dómstólum rökstudd að ekkert sé hæft í þessum málatilbúnaði Eimskips.

Þann 10. október 2019 vísaði Héraðsdómur Reykjavíkur frá umræddri kröfu Eimskips um að úrskurðað yrði að rannsókn Samkeppniseftirlitsins væri ólögmæt og að henni skyldi hætt. Eimskip kærði úrskurðinn til Landsréttar. Með úrskurði 24. október 2019 staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms. Eftir stóð þá krafa Eimskips um að aflétt yrði haldi sem hafði verið lagt á gögn fyrirtækisins og að afritum slíkra gagna yrði eytt.

Með úrskurði 18. desember hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur þeirri kröfu Eimskips sem eftir stóð, þ.e. að aflétt yrði haldi sem var lagt á gögn fyrirtækisins og að afritum gagnanna yrði eytt. Eimskip skaut málinu til Landsréttar.

Með úrskurði sínum í gær staðfesti Landsréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur. Í úrskurðinum kemur fram að gögn málsins beri á engan hátt með sér að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á ætluðu samráði Eimskips og Samskipa hafi verið felld niður og ekkert liggi fyrir um að húsleitir, haldlagning og rannsókn eftirlitsins á gögnum Eimskips hafi verið ólögmæt. Þá veiti samkeppnislög heimild til þess að Samkeppniseftirlitið taki þátt í rannsóknaraðgerðum lögreglu. Taldi Landsréttur að Eimskip hefði ekki fært haldbær rök fyrir því að um vanhæfi starfsmanna eftirlitsins væri að ræða. Þá segir í úrskurðinum: „Stjórnsýslumálið á hendur varnaraðilum hefur tekið langan tíma. Af fyrirliggjandi gögnum er hins vegar ljóst að það er mjög umfangsmikið og það dregur að lokum þess, en fyrir Landsrétti lagði [Samkeppniseftirlitið] andmælaskjal II í málinu frá 13. desember síðastliðnum, sem telur 1168 blaðsíður. Varnaraðilar hafa engin rök fært fyrir því að afrit hinna haldlögðu gagna hafi ekki þýðingu við þá rannsókn sem eftir stendur og við úrlausn stjórnsýslumálsins.“ Þá geti Eimskip látið reyna á rannsókn Samkeppniseftirlitsins á síðari stigum.

Vegna fyrirspurna um stöðu rannsóknarinnar skal eftirfarandi tekið fram:

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins beinist að því hvort Eimskip og Samskip hafi haft með sér ólögmætt samráð á mörkuðum fyrir sjóflutninga, flutningsmiðlun og landflutninga og brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Hófst þessi rannsókn í kjölfar ábendinga frá bæði viðskiptavinum og keppinautum Eimskips og Samskipa.

Samkeppniseftirlitið hefur haft möguleg brot fyrirtækjanna til samfelldrar rannsóknar og er hún vel á veg komin. Meðal annars hefur Samkeppniseftirlitið gefið fyrirtækjunum kost á að tjá sig um frummat eftirlitsins, en eftirlitið gætir andmælaréttar fyrirtækja í málum af þessu tagi með því að gefa út svokallað andmælaskjal. Í málsmeðferðarreglum Samkeppniseftirlitsins kemur fram að í andmælaskjali „skal helstu atvikum málsins lýst og greint frá grundvelli þess í aðalatriðum að tilteknar aðstæður eða háttsemi kunni að fara gegn ákvæðum samkeppnislaga.“

Eimskipi og Samskipum hefur verið gefið tækifæri til að nýta andmælarétt sinn í tveimur áföngum. Fyrra andmælaskjalið var birt fyrirtækjunum þann 6. júní 2018 og þeim boðið að koma að athugasemdum og sjónarmiðum sínum á framfæri. Hvorugt fyrirtækjanna nýtti sér þann rétt sinn. Síðara andmælaskjalið var sem fyrr segir birt fyrirtækjunum 13. desember 2019. Hafa fyrirtækjunum nú verið gefnir frestir til að koma athugasemdum og sjónarmiðum sínum á framfæri.

Mál þetta sætir forgangi hjá Samkeppniseftirlitinu. Er umfang rannsóknarinnar, þar á meðal undirliggjandi gagnamagn, án fordæma við rannsókn samkeppnismála hér á landi.

Hér er tilvísun í úrskurð Landsréttar.