Fréttayfirlit: 2023

Fyrirsagnalisti

22.12.2023 : Samþjöppun í dagblaðaprentun

Rannsókn eftirlitsins leiddi í ljós að tilboð Landsprents væri eina raunhæfa tilboðið og að í ljósi samrunaskrár, fylgigagna auk umsagna aðila væri það mat eftirlitsins að skilyrði undanþágunnar um fyrirtæki á fallandi fæti væru uppfyllt. Vegna þessa telur Samkeppniseftirlitið ekki forsendur til þess að hafast frekar að í tengslum við þennan samruna, hvorki á grundvelli samrunaákvæða samkeppnislaga, né ákvæða fjölmiðlalaga. 

12.12.2023 : Fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins hafa ekki haldið í við þróun verkefnaumfangs

Fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins árið 2024 væru um 1 milljarður króna ef þau hefðu fylgt breytingum á umsvifum í efnahagslífinu frá árinu 2014 (í stað 582 milljóna króna framlags samkvæmt fjárlagafrumvarpi). Ef miðað væri við að þau hefðu haldist óbreytt á föstu verðlagi frá árinu 2014 væru þau um 723 milljónir króna.

24.11.2023 : Festi kaupir Lyfju – óskað eftir sjónarmiðum

Öllum hagsmunaðilum og öðrum áhugasömum er gefinn kostur á að skila inn sjónarmiðum vegna samrunans, til dæmis um möguleg áhrif hans á samkeppni, um viðkomandi markaði, og hversu virk samkeppni er á viðkomandi mörkuðum sem eru að minnsta kosti dagvörumarkaður og sala lyfja.

17.11.2023 : Áfrýjunarnefnd samkeppnismála vísar kæru Hreyfils frá

Í úrskurðinum segir að ákvörðunin hafi það í för með sér „...að leigubifreiðastjórum sem starfa í þjónustu Hreyfils, er í sjálfsvald sett hvernig þeir nýta sitt rekstrarleyfi meðan ákvörðunin varir.“

7.11.2023 : Samruni EY og Deloitte – ný tilkynning og undanþága til að framkvæma samruna

Fyrirtækin hafa óskað eftir undanþágu frá banni við að framkvæma samrunann meðan hann er til rannsóknar. Að virtum sjónarmiðum aðila, fyrirliggjandi upplýsingum, og gögnum um breytingar á samkeppnisstöðu EY á sennilegum markaði fyrir endurskoðun stærri fyrirtækja, er það mat Samkeppniseftirlitsins að skilyrði undanþágu séu uppfyllt. 

26.10.2023 : Ársskýrsla Samkeppniseftirlitsins 2022 komin út

Ársskýrsla Samkeppniseftirlitsins fyrir 2022 er komin út. Í skýrslunni er starf eftirlitsins á árinu reifað, en í henni er meðal annars farið yfir tölulegar upplýsingar, rannsóknir og verkefni á árinu, málsvarahlutverk Samkeppniseftirlitsins auk þess birtar eru áherslur næstu ára, yfirlit yfir stjórnvaldssektir og margt fleira.

10.10.2023 : Yfirtaka Regins hf. á Eik fasteignafélagi hf. – óskað eftir sjónarmiðum

Þeim sem þess óska er hér með boðið að koma á framfæri skriflegum sjónarmiðum, svo sem um samrunann, möguleg samkeppnisleg áhrif hans, um þá markaði sem samruninn hefur áhrif á og hvort eða hversu virk samkeppni er fyrir atvinnuhúsnæði hérlendis, ásamt öðrum athugasemdum sem geta skipt máli fyrir rannsóknina.

9.10.2023 : Fyrri athugun á stjórnunar- og eignatengslum hætt í framhaldi af úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála

Samkeppniseftirlitið ákvað að una úrskurði áfrýjunarnefndar. Af þeim sökum hefur Samkeppniseftirlitið slitið samningi sínum við matvælaráðuneytið, dags. 19. september 2022, sem skapaði eftirlitinu rekstrarlegt svigrúm til að ljúka umræddri athugun á þessu ári. Var samningnum slitið með bréfi, dags. 29. september síðastliðinn.

Þessu til samræmis gaf Samkeppniseftirlitið Fjársýslu ríkisins fyrirmæli um endurgreiðslu þeirra fjármuna sem það hafði fengið greidda á grundvelli samningsins. Hafa þeir fjármunir nú verið endurgreiddir.

5.10.2023 : Samkeppniseftirlitið heimilar kaup Sýnar á Já með skilyrðum

Í því skyni að koma í veg fyrir skaðleg áhrif samrunans hefur verið gerð sátt í málinu sem miðar að því að draga úr og/eða koma í veg fyrir ákveðin atriði sem rannsóknin gaf til kynna. Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að með þessum skilyrðum hafi samruninn ekki skaðleg áhrif á samkeppni.

29.9.2023 : Samkeppniseftirlitið heimilar kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar

Það er mat Samkeppniseftirlitsins að með útbreiðslu Ljósleiðarans verði til fleiri valkostir í gagnaflutningi um landið allt fyrir fjarskiptafélög og tvö landsdekkandi grunnnet.

20.9.2023 : Athugun Samkeppniseftirlitsins á stjórnunar- og eignatengslum fyrirtækja í sjávarútvegi

Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 3/2023, Brim hf. gegn Samkeppniseftirlitinu, er felld úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 29/2023. Að gengnum úrskurðinum lítur Samkeppniseftirlitið svo á að forsendur séu brostnar fyrir samningi Samkeppniseftirlitsins við matvælaráðuneytið og mun óska eftir viðræðum við ráðuneytið um lok hans.

1.9.2023 : Leiðir til að efla samkeppni á flutningamarkaði

Með álitinu er beint tilmælum til innviðaráðherra, Faxaflóahafna, Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga, um aðgerðir sem m.a. eru til þess fallnar að hafa jákvæð áhrif á vöruverð á fjölmörgum sviðum, almenningi og fyrirtækjum til hagsbóta.

31.8.2023 : Alvarleg brot Samskipa á samkeppnislögum

Samkeppniseftirlitið hefur með ákvörðun nr. 33/2023 lokið rannsókn á brotum Samskipa á samkeppnislögum. Það er niðurstaða eftirlitsins að Samskip hafi með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með ólögmætu samráði við Eimskip.

Þá er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Samskip hafi við rannsókn málsins brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með rangri, villandi og ófullnægjandi upplýsingagjöf og gagnaafhendingu.

Samanlagðar stjórnvaldsektir vegna framangreindra brota nema 4,2 milljörðum króna.

9.8.2023 : Áfrýjunarnefnd samkeppnismála vísar tveimur málum aftur til Samkeppniseftirlitsins

Í úrskurðum sínum leggur áfrýjunarnefnd fyrir Samkeppniseftirlitið að ljúka meðferð málanna í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. Eru málin því aftur komin til meðferðar hjá eftirlitinu.

4.8.2023 : Fyrirspurn Morgunblaðsins í tengslum við athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi

Samkeppniseftirlitinu barst fyrirspurn frá Morgunblaðinu, þar sem óskað er nánar tilgreindra upplýsinga um athugun eftirlitsins á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi og samning við matvælaráðuneytið um skýrslu þess efnis. Í þágu upplýstrar umræðu er svar Samkeppniseftirlitsins birt á heimasíðu þess.

28.7.2023 : Símanum gert að endurnýja samning um dreifingu og heildsölu við Nova á Símanum Sport sem býður upp á ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu

Samkeppniseftirlitið telur að í háttsemi Símans felist sölusynjun fyrirtækis sem býr yfir mikilvægri og vinsælli vöru til endursölu og að það myndi fela í sér skaðleg áhrif fyrir samkeppni á fjarskipta- og sjónvarpsmörkuðum hér á landi ef Nova gæti ekki lengur boðið sínum viðskiptavinum upp á Enska boltann.

20.7.2023 : Hreyfli óheimilt að banna leigubifreiðastjórum sem keyra fyrir stöðina að nýta sér þjónustu annarra leigubifreiðastöðva – Ákvörðun til bráðabirgða

Samkeppniseftirlitið hefur í dag tekið ákvörðun til bráðabirgða vegna sennilegs brots Hreyfils gegn samkeppnislögum nr. 44/2005, með því að banna leigubifreiðastjórum sem keyra fyrir Hreyfil að nýta sér þjónustu annarra leigubifreiðastöðva.

19.7.2023 : Staða athugunar á stjórnunar- og eignatengslum fyrirtækja í sjávarútvegi og ákvörðun um dagsektir

Eftir ítrekuð bréfaskipti hefur Samkeppniseftirlitið nú tekið ákvörðun um að nýta sér heimild sem kveðið er á um 38. gr. samkeppnislaga til þess að beita fyrirtæki, sem hefur ekki enn veitt mikilvægar upplýsingar og gögn sem óskað var eftir, dagsektum.

14.7.2023 : Ekki forsendur til að íhlutast vegna samruna Vélsmiðju Orms og Stálsmiðjunnar-Framtaks

Að undangenginni framangreindri rannsókn og viðbótargagnaöflunar á síðustu stigum rannsóknarinnar telur Samkeppniseftirlitið að ekki séu forsendur til þess að íhlutast vegna samrunans. Mun Samkeppniseftirlitið því ekki aðhafast frekar vegna málsins sem telst því lokið. Ítarlegri ákvörðun um rannsóknina verður birt síðar á vef eftirlitsins.

6.7.2023 : Samkeppniseftirlitið telur ekki forsendur til að fella niður öll skilyrði um starfsemi Símans þrátt fyrir sölu á Mílu til Ardian

Eftir athugun í málinu er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að ekki séu forsendur til að fella niður mikilvæg efnisskilyrði í sáttinni frá 2015 gagnvart Símanum, að svo stöddu.

Síða 1 af 2