Fréttayfirlit: 2021

Fyrirsagnalisti

4.3.2021 : Hæstiréttur Íslands staðfestir 480 milljón króna sekt á Mjólkursamsöluna vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum

Með dómi Hæstaréttar Íslands, sem kveðinn var upp í dag, er staðfestur dómur Landsréttar um alvarleg brot Mjólkursamsölunnar (MS) á samkeppnislögum. Standa óhaggaðar 480 m.kr. sektir sem Samkeppniseftirlitið lagði á MS vegna alvarlegrar misnotkunar á markaðsráðandi stöðu og brota á upplýsingaskyldu félagsins.

25.2.2021 : Samkeppniseftirlitið heimilar samruna dótturfélags Síldarvinnslunnar hf. og Bergs ehf

Með ákvörðun nr. 2/2021 hefur Samkeppniseftirlitið tekið afstöðu til samruna Bergs-Hugins ehf., dótturfélags Síldarvinnslunnar hf., og Bergs ehf. Um er að ræða sjávarútvegsfyrirtæki sem bæði starfa við botnfiskveiðar og hafa gert út frá Vestmannaeyjum með samanlagt þremur togurum.  

3.2.2021 : Forgangsröðun mála hjá Samkeppniseftirlitinu

Vegna mikilla anna við rannsókn samrunamála, mála vegna yfirstandandi heilsuvár af völdum COVID-19, og annarra brýnna umfangsmikilla rannsókna, er fyrirsjáanlegt að tafir verði á næstunni við meðferð annarra mála hjá Samkeppniseftirlitinu.

Samkeppniseftirlitið hefur á undanförnum misserum kappkostað að flýta meðferð mála eftir því sem kostur er, og hefur í því sambandi beitt ákvæði 3. mgr. 8. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 sem veitir eftirlitinu heimild til að leggja mat á tilefni rannsókna og forgangsröðun mála.

13.1.2021 : Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir að Síminn hafi með markaðssetningu og sölu á Enska boltanum brotið gegn sátt sem fyrirtækið gerði við Samkeppniseftirlitið

Áfrýjunarnefndar samkeppnismála kvað í dag upp úrskurð í tilefni af kæru Símans hf. á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þar sem fyrirtækinu hafði verið gert að greiða stjórnvaldssekt vegna brota á skilyrðum tveggja sátta sem það hafði gert við eftirlitið 23. janúar og 15. apríl 2015.

7.1.2021 : Gróf brot Byko á samkeppnislögum og EES-samningnum staðfest og sekt hækkuð

Hæstiréttur Íslands hefur í dag staðfest að Byko hafi framið alvarleg brot á samkeppnislögum og hækkað álagða sekt í 400 mkr.

6.1.2021 : Nýjar reglur um meðferð samrunamála tóku gildi um áramótin

Tekið hafa gildi nýjar reglur um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum, nr. 1390/2020. Hinar nýju reglur byggja að verulegu leyti á áður gildandi reglum frá árinu 2008, með síðari breytingum.