Samkeppni Logo

Ábati af samkeppniseftirliti í Evrópu þúsundir milljarða á ári hverju

31. október 2025

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti á dögunum skýrslu þar sem lagt er mat á ábata af íhlutunum samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnarinnar
yfir tíu ára tímabilið 2012 til 2021. Áætlað er að beinn ábati hafi á
tímabilinu numið á bilinu 12 til 21 milljarði evra á ári hverju eða sem nemur
um það bil tvö til þrjú þúsund milljörðum króna.

Framkvæmdastjórnin hóf árlegar ábatamælingar árið 2012 og á
þeim áratug sem mælingarnar ná til nemur
metinn heildarábati af samkeppniseftirliti á bilinu 18 til 30 þúsund milljörðum
króna. Þrátt fyrir að metinn heildarábati sé á nokkuð breiðu bili gefur matið
þó til kynna hvert umfang ábatans er. Ábatamatið tekur mið af leiðbeiningum
OECD
um mat á beinum áhrifum vegna íhlutana samkeppniseftirlita og
fræðilegri umfjöllun um mat á ábata af samkeppniseftirliti.

Með beinum ábata er átt við þá líklegu verðhækkun sem
inngrip samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnar ESB kom í veg fyrir yfir tiltekið
tímabil á þeim markaði eða mörkuðum sem áhrifa íhlutunar gætti. Matið er
varfærið að því leyti að það tekur ekki tillit til varnaðaráhrifa (e.
deterrence effect) samkeppnislaga eða samkeppniseftirlits eða áhrifa inngripa á
aðra þætti eins og gæði, nýsköpun og framleiðni. Að mati framkvæmdastjórnar ESB
vega þessi atriði líklega meira en beinn ábati, en á hinn bóginn er erfiðleikum
bundið að leggja mat á þau. Því má segja að þær tölur sem framkvæmdastjórnin
birtir í skýrslunni séu aðeins toppurinn af ísjakanum þegar kemur að ábata neytenda
af öflugu samkeppniseftirliti.

Samkeppniseftirlitið hefur beitt aðferðafræði OECD við mat á
ábata af íhlutunum þess, en þó ekki með reglubundnum hætti. Vinna við endurbætt
ábatamat stendur nú yfir og er í framhaldinu ætlunin að uppfæra það mat árlega,
eins og m.a. er gerð grein fyrir í skýrslu
Ríkisendurskoðunar um starfsemi Samkeppniseftirlitsins
. Samkeppniseftirlitið mun gefa áhugasömum tækifæri til að koma á framfæri
sjónarmiðum um ábatamatið.  

Leit

Nýr vefur samkeppni.is

Á dögunum var settur í loftið Beta útgáfa af nýjum vef. Við tökum glöð á móti öllum ábendingum og athugasemdum varðandi nýja vefinn í gegnum formið hér að neðan.

"*" indicates required fields

This field is for validation purposes and should be left unchanged.