27.6.2018

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir mikla yfirburði Forlagsins í bókaútgáfu

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur í dag í máli nr. 1/2018 staðfest niðurstöðu ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 47/2017 um að hafna beiðni Forlagsins ehf. um að þau skilyrði sem sett voru vegna samruna JPV útgáfu ehf. og Vegamóta ehf. yrðu felld úr gildi. Við þann samruna varð Forlagið til í núverandi mynd sem öflugasta bókaútgáfa landsins og voru skilyrðin sett til að eyða skaðlegum áhrifum samrunans á samkeppni. 

Í úrskurði áfrýjunarnefndar er staðfest að staða Forlagsins hafi ekki breyst í meginatriðum á liðnum árum. Forlagið er enn stærsta bókaútgáfan á Íslandi með 45-50% hlutdeild í almennri bókaútgáfu og er með u.þ.b. fjórfalt meiri hlutdeild en sá útgefandi sem næst kemur að stærð, sem er Bjartur-Veröld. Þá er Forlagið með mikla breidd í útgáfu samanborið við flesta aðra bókaútgefendur. 

Áfrýjunarnefndin hefur því staðfest að áfram skuli hvíla á Forlaginu skilyrði sem er aðallega ætlað að koma í veg fyrir að fyrirtækið beiti styrk sínum gagnvart keppinautum og skaði þannig samkeppni. 

Samkeppniseftirlitið telur úrskurðinn mikilvægan og er niðurstaðan til þess fallin að standa vörð um virka samkeppni á bókamarkaði þar sem Forlagið er markaðsráðandi og aðgangshindranir miklar, ekki síst fyrir minni útgáfufyrirtæki með knappan fjárhag. 


Skilyrðin sem áfram munu hvíla á Forlaginu

Þann 5. febrúar 2008 tók Samkeppniseftirlitið ákvörðun nr. 8/2008 um samruna JPV útgáfu ehf. og Vegamóta ehf. (útgáfa sem þá var í eigu Máls og menningar). Til að eyða þeim samkeppnislegu vandamálum sem Samkeppniseftirlitið taldi að samruninn hefði í för með sér lögðu samrunaaðilar fram tillögur að skilyrðum sem honum yrðu sett. Sátt náðist um skilyrðin sem í framhaldi voru sett með ákvörðuninni. 

Þau skilyrði sem ennþá eru í gildi, og staðfest voru með úrskurði áfrýjunarnefndar í dag, fela í sér eftirfarandi:

  • Forlagið má aðeins semja um útgáfurétt á einum bókartitli hverju sinni við hvern rithöfund.
  • Forlaginu er óheimilt að veita endurseljendum bóka afslátt frá heildsöluverði bóka sinna nema Forlagið geti með óyggjandi hætti sýnt fram á kostnaðarlegt hagræði af viðskiptum við viðkomandi endurseljanda sem sé í samræmi við afsláttinn.
  • Forlaginu er óheimilt að mismuna endurseljendum bóka í hvers kyns kynningarstarfi, auglýsingaherferðum, eða með efni sem snýr að uppstillingu og auglýsingu bóka í verslunum endurseljenda nema slík mismunun byggist á almennum viðskiptalegum sjónarmiðum.
  •  Forlaginu er óheimilt að gera hvers kyns einkakaupasamninga við endurseljendur bóka.
  • Forlaginu er óheimilt að hafa nokkur afskipti af söluverði endurseljenda þeirra bóka sem félagið gefur út eða birta með nokkru móti söluverð endurseljenda


Fyrri úrlausnir áfrýjunarnefndar og dómstóla vegna skilyrðanna

Áður hefur komið til kasta áfrýjunarnefndar og dómstóla vegna skilyrðanna: 

  • Brot á ákvörðun: Með ákvörðun nr. 24/2011, Brot Forlagsins ehf. á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2008, var Forlaginu gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 25.000.000 kr. vegna brota á umræddum skilyrðum. Forlagið kærði ákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem staðfesti hana með úrskurði sínum í máli nr. 5/2011. Gekk málið alla leið til Hæstaréttar Íslands sem staðfesti með dómi sínum í máli nr. 28/2015 að Forlagið hefði brotið gegn banni við birtingu leiðbeinandi endursöluverðs til smásala og fyrirtækinu bæri að greiða 20.000.000 kr. sekt í ríkissjóð af þeim sökum. 
  • Krafa Forlagsins um að fá upplýsingar um heimildarmenn/keppinauta: Við meðferð endurupptökumálsins, sbr. ákvörðun nr. 47/2017, krafðist Forlagið þess í apríl 2017 að fá aðgang að gögnum sem aflað hafði verið frá keppinautum fyrirtækisins og voru trúnaðarupplýsingar. Var m.a. um að ræða upplýsingar um heimildarmenn (aðallega keppinauta) sem veitt höfðu Samkeppniseftirlitinu upplýsingar og komið á framfæri sjónarmiðum auk tölulegra upplýsinga. Samkeppniseftirlitið synjaði Forlaginu um upplýsingarnar þar sem um viðkvæmar viðskiptaupplýsingar væri að ræða sem leynt skyldu fara. Forlagið kærði niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 5/2017 var staðfest að öllu leyti ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að synja Forlaginu um afhendingu upplýsinganna. Meðal annars var tekið fram að ekki yrði séð að neinir raunverulegir hagsmunir væru fólgnir í því fyrir Forlagið að fá vitneskju um það hvernig keppinautar og viðskiptavinir fyrirtækisins hefðu tjáð sig um erindi þess til Samkeppniseftirlitsins.