28.3.2022

Ársskýrsla Samkeppniseftirlitsins 2021 komin út

  • Forsida-2021

Ársskýrsla Samkeppniseftirlitsins fyrir 2021 er komin út. Í skýrslunni er starf eftirlitsins á árinu reifað, en í henni er meðal annars farið yfir tölulegar upplýsingar, rannsóknir og verkefni á árinu, málsvarahlutverk Samkeppniseftirlitsins auk þess sem birtar eru áherslur næstu ára, yfirlit yfir stjórnvaldssektir og margt fleira.

Leitast er við að setja upplýsingar fram á einfaldan og gagnsæjan hátt en í skýrslunni er að finna fjölda hlekkja sem gefa lesanda tækifæri til að kafa dýpra í vissa þætti.

Hér má nálgast ársskýrslu Samkeppniseftirlitsins 2021.

Úr inngangi Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra:

„Árið 2021 var annasamt í meira lagi. Í skýrslu þessari er greint frá fjölbreyttum verkefnum þar sem Samkeppniseftirlitið rækti málsvara- og leiðbeiningarhlutverk sitt með útgáfu fjölda skýrslna, umsagna og álita, pistla og þátttöku á fundum og ráðstefnum.

Einnig voru miklar annir við rannsóknir mála, en árið einkenndist af auknu verkefnaálagi vegna rannsókna á tilkynntum samrunum, en rúmlega þriðjungi ráðstöfunartíma eftirlitsins var varið í samrunamál, í samanburði við um 20% árin á undan. Stærstur hluti þeirra var afgreiddur á svokölluðum I. fasa, þ.e. innan 25 virkra daga, en sumir vörðuðu mikilvæga almannahagsmuni og kölluðu á umfangsmiklar rannsóknir.“

Úr ávarpi Sveins Agnarssonar, stjórnarformanns:

„Við aðstæður sem þessar [áhrif COVID-19 og innrás Rússa í Úkraínu] er mikilvægt að virk samkeppni fái notið sín og hugað sé vel að því hvernig breytingar á einstökum mörkuðum geta riðlað stöðu fyrirtækja og gert nýjum keppinautum erfitt að fóta sig. Öflug samkeppni kemur einnig í veg fyrir að fyrirtæki velti kostnaðarhækkunum yfir á neytendur í stað þess að mæta þeim með því að hagræða í rekstri.

Virk samkeppni og festa í framfylgd samkeppnislaga er vísasta leiðin til að hraða endurreisn atvinnulífs og búa íslenskt hagkerfi undir þær breytingar sem framundan eru, ekki eingöngu í þeim atvinnugreinum sem faraldurinn lék hvað verst, heldur einnig á öðrum sviðum, svo sem á vettvangi stafrænnar starfsemi og aðgerða til að draga úr hlýnun jarðar.“

Forsida-2021

Forsida-Arsskyrsla