19.9.2025

Brýn mál til úrlausnar, en mörg komast ekki á dagskrá. Ársskýrsla Samkeppniseftirlitsins 2024 komin á vefinn

Ársskýrsla Samkeppniseftirlitsins fyrir árið 2024 liggur nú fyrir. Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um árið 2024 í tölum, áherslur eftirlitsins, einstakar rannsóknir, leiðbeiningar og tilmæli gagnvart hinu opinbera, ásamt úrlausnum áfrýjunarnefndar samkeppnismála og dómstóla á árinu.

Þá má einnig að finna yfirlit yfir úrlausnir dómstóla og stjórnvaldssektir frá setningu samkeppnislaga, ásamt mati á stöðu eftirlitsins og löggjafar um samkeppnismál. Jafnframt er í skýrslunni yfirlit yfir erlent samstarf og samstarf við lykilstofnanir hér á landi. Þá er ársreikningur eftirlitsins birtur.

Fjöldi mála til úrlausnar

Á árinu 2024 tók Samkeppniseftirlitið til meðferðar yfir 120 stjórnsýslumál og lauk rannsókn á tæplega 70 þeirra. Samhliða þessu sinnti stofnunin fjölmörgum öðrum verkefnum, þar á meðal um 40 umsagnarbeiðnum frá Alþingi og öðrum stjórnvöldum.

Viðhorf almennings og stjórnenda fyrirtækja til samkeppni metin
„Á árinu birti Samkeppniseftirlitið niðurstöður tveggja kannana um viðhorf annars vegar almennings og hins vegar stjórnenda fyrirtækja til samkeppnismála. Niðurstöðurnar sýna að almenningur hér á landi hefur ríkan skilning á mikilvægi virkrar samkeppni. Samanburður við samskonar könnun í löndum Evrópusambandsins sýnir jákvæðari viðhorf til samkeppni hér á landi en gengur og gerist í Evrópu.

Jafnframt sýna niðurstöðurnar að samkeppnislög og beiting þeirra hefur mikil áhrif á ákvarðanir stjórnenda fyrirtækja.“ Úr inngangi Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra.

Þröngur stakkur hamlar framkvæmd
„Á undanförnum árum hafa fjárheimildir Samkeppniseftirlitsins dregist saman að raungildi og starfsmenn eru nú álíka margir og gert var ráð fyrir fljótlega eftir stofnun þess árið 2005 (23 starfsmenn). Þessi þröngi stakkur hefur leitt til þess að Samkeppniseftirlitið hefur þurft að beita markvissri forgangsröðun verkefna og jafnvel fella niður mál eða hafna því að bregðast við kvörtunum fyrirtækja.

Jafnframt hefur eftirlitið kappkostað að auka skilvirkni, auk þess sem unnið er að innleiðingu rafrænnar samskiptagáttar og tæknilausna fyrir kerfisbundið eftirlit með stjórnunar- og eignatengslum. Samkeppniseftirlitið getur hins vegar ekki uppfyllt lögbundið hlutverk sitt nema það njóti nauðsynlegs stuðnings. Aðeins þannig verður hægt að ná markmiði stjórnvalda um sterkt samkeppniseftirlit.“ Úr ávarpi Sveins Agnarssonar, stjórnarformanns.

Skýrslan í heild sinni er aðgengileg á vef Samkeppniseftirlitsins.

Nánari upplýsingar veitir:
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins – sími: 585 0700