2.9.2021

Ferðaskrifstofa Íslands dregur til baka samrunatilkynningu vegna kaupa félagsins á rekstri Heimsferða og óskar frekari viðræðna um möguleg skilyrði

  • Sumarfri-mynd

Samkeppniseftirlitið hefur að undanförnu haft til ítarlegrar rannsóknar fyrirhuguð kaup Ferðaskrifstofu Íslands (FÍ) á rekstri Heimsferða. Rannsóknin var á lokastigi en FÍ hefur nú afturkallað samrunatilkynningu sína.

Felur afturköllunin í sér að umræddu máli er lokið án ákvörðunar og að samruni FÍ og Heimsferða getur ekki komið til framkvæmda að óbreyttu.

Samrunaaðilar hafa hins vegar upplýst Samkeppniseftirlitið um að þeir hyggist tilkynna aftur um samrunann á breyttum grunni og leggja til skilyrði sem eytt geta mögulegum samkeppnishindrunum vegna samrunans. Um er að ræða tillögur sem ekki voru settar fram við fyrri meðferð málsins og hefur eftirlitinu því ekki gefist tækifæri til þess að taka afstöðu til þeirra.

Bakgrunnsupplýsingar

Samruna yfir tilteknum veltumörkum ber að tilkynna Samkeppniseftirlitinu og ber eftirlitinu að taka afstöðu til þeirra innan tiltekinna lögbundinna tímafresta. Samrunatilkynning vegna þessa máls barst Samkeppniseftirlitinu 21. janúar 2021. Hefur rannsókn eftirlitsins verið umfangsmikil, en vegna sjónarmiða samrunaaðila þurfti m.a. að taka skilgreiningu markaða í málinu til ítarlegrar rannsóknar, s.s. með því að framkvæma könnun á meðal viðskiptavina félaganna.

Samkeppniseftirlitið birti samrunaaðilum frummat sitt í andmælaskjali þann 10. júní 2021. Þar var samrunaaðilum gerð grein fyrir því frummati Samkeppniseftirlitsins að samruni FÍ og Heimsferða væri skaðlegur samkeppni samkvæmt 17. gr. c samkeppnislaga nr. 44/2005. Var samrunaaðilum gefið færi á að tjá sig um efni andmælaskjalsins og setja fram hugmyndir um möguleg skilyrði.

Samrunaaðilar andmæltu frummati Samkeppniseftirlitsins, en settu jafnframt fram tillögur að skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið mat ófullnægjandi, að undangenginni rannsókn.

Með því að afturkalla samrunatilkynningu hafa samrunaaðilar komið í veg fyrir mögulega íhlutun af hálfu Samkeppniseftirlitsins með ógildingu samruna. Þess í stað hyggjast samrunaaðilar láta reyna á hvort unnt sé að heimila samrunann á grundvelli nýrra tillagna að skilyrðum sem eytt geta mögulegum samkeppnishindrunum. Verður meðferð þess máls hraðað eins og kostur er.