12.6.2020

Fjölsótt alþjóðleg vefráðstefna um samkeppnismál – samstaða um mikilvægi samkeppnisreglna

VefradstefnaÞann 9. júní sl. stóð Samkeppniseftirlitið fyrir alþjóðlegri vefráðstefnu um stefnumörkun á vettvangi samkeppnismála, undir fyrirsögninni „COVID:19: Hætta á aukinni verndarstefnu og veikara eftirliti með samkeppni?“. Tæplega 250 þátttakendur skráðu sig til leiks, frá rúmlega 40 þjóðlöndum. Ráðstefnan var liður í fundarröð Samkeppniseftirlitsins, „Samtal um samkeppni“.

Ráðstefnan hafði tvíþættan tilgang. Annars vegar var hún liður í þeirri viðleitni Samkeppniseftirlitsins að afla upplýsinga og sjónarmiða sem nýst geta í stefnumörkun hér á landi um efnahags- og samkeppnismál við ríkjandi efnahagsaðstæður. Hins vegar var ráðstefnan framlag Samkeppniseftirlitsins til erlends samstarfs samkeppniseftirlita, en eftirlitið er þátttakandi í þéttu samstarfi, m.a. á vettvangi evrópskra og norrænna samkeppnisyfirvalda.

Í pallborði ráðstefnunnar sátu fimm virtir fræðimenn á vettvangi samkeppnismála. Frá Bandaríkjunum komu Jonathan Baker, rannsóknarprófessor við American University Washington College of Law og Fiona Scott Morton, prófessor í hagfræði við Yale University School of Management. Frá meginlandi Evrópu komu Pierre Régibeau, aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Lars Sørgard, forstjóri norska samkeppniseftirlitsins. Frá Íslandi tók þátt Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.

Á ráðstefnunni var m.a. rakið hvernig beiting samkeppnisreglna hefur á undanliðnum áratugum þróast með mismunandi hætti. Þannig var bent á að væg beiting samkeppnisreglna og túlkun samkeppnisréttar í Bandaríkjunum hafi leitt til aukinnar samþjöppunar á ýmsum mikilvægum mörkuðum sem ýtt hafi m.a. undir aukna misskiptingu auðs. Á hinn bóginn eru Evrópsk samkeppnisyfirvöld að huga að endurbótum samkeppnisreglna og enn meiri festu í eftirfylgni þeirra, til þess að tryggja samkeppnishæfni Evrópuríkja.

Rætt var um hvort það væri skynsamlegt að veita fyrirtækjum vernd frá samkeppni/samkeppniseftirliti á heimamarkaði í skyni að gera þeim betur kleift að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni (e. national champions). Almenn samstaða var meðal fundarmanna um að þetta væri ekki skynsamleg stefna. Þvert á móti myndi festa í framfylgd samkeppnisreglna á heimamarkaði ala af sér sterkari fyrirtæki, sem yrðu betur í stakk búin til þess að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni, auk þess sem hagsmunir neytenda í viðkomandi ríki væru betur tryggðir.

Þá var einnig samstaða um að þjóðríki ættu að forðast að svara núverandi efnahagssamdrætti með aukinni verndarhyggju og veikara eftirliti. Mun árangursríkara væri að nýta krafta samkeppninnar við endurreisnina og flýta þannig uppbyggingu efnahagslífsins.