23.4.2021

Framkvæmdastjórn ESB samþykkir beiðni Samkeppniseftirlitsins að alþjóðlegur samruni fyrirtækja á sviði krabbameinsskimana verði rannsakaður

Í gær samþykkti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins beiðni Samkeppniseftirlitsins, og sambærilegar beiðnir samkeppnisyfirvalda í Belgíu, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi og Noregi, um að taka samruna Illumina og Grail til meðferðar. Um er að ræða líftæknifélög sem m.a. sérhæfa sig á sviði krabbameinsskimana.

Ástæða fyrirhugaðrar rannsóknar eru áhyggjur samkeppnisyfirvalda, þ. á m. þess íslenska, af því að samruninn geti haft samkeppnislega neikvæð áhrif, sem geti leitt til hærra verðs, skertra gæða eða minni nýsköpunar á mikilvægum mörkuðum er snerta krabbameinsskimanir.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri: „Það er mjög mikilvægt að samkeppnishindranir verði ekki til þess að auka kostnað eða tefja þróun nýrra aðferða í baráttunni við alvarlega sjúkdóma. Nýlega ógilti Samkeppniseftirlitið samruna myndgreiningarfyrirtækja með þetta í huga. Í þessu tilfelli er eftirlitið að beita heimildum sínum í evrópsku samstarfi með sömu markmið að leiðarljósi.“

Málið er m.a. áhugavert fyrir þær sakir að samruni félaganna er ekki tilkynningarskyldur í framangreindum ríkjum eða til framkvæmdastjórnar ESB þar sem veltuviðmið eru ekki uppfyllt.

Þrátt fyrir að velta lyftæknifélagsins Grail uppfylli ekki umrædd veltuviðmið er fyrirtækið að þróa tækni og vörur sem kunna að fela í sér mikla möguleika og mikilvæga eiginleika fyrir rannsóknir og skimun á krabbameini. Þessir möguleikar virðast koma fram að einhverju leyti í kaupverðinu en líftæknifélagið Illumina greiðir um 8 milljarða USD fyrir félagið. Er því um að ræða samruna á mörkuðum sem eru mikilvægir fyrir Íslendinga.

Á grundvelli EES-samningsins fór Samkeppniseftirlitið þess á leit við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að það myndi taka samruna Illumina og Grail til skoðunar. Hefur framkvæmdastjórn ESB nú tilkynnt opinberlega að hún hyggist skoða þau samkeppnislegu áhrif sem samruninn kann að hafa, m.a. á grundvelli beiðni Samkeppniseftirlitsins, en framkvæmdastjórnin hefur einnig nýlega birt leiðbeiningar um hvernig slíkt tilvísunarferli fer fram. Þær eru aðgengilegar hér.

Samruni félaganna verður einnig rannsakaður í löndum utan Evrópu, en nýlega tilkynntu bandarísk samkeppnisyfirvöld að þau ætli sér að skoða samrunann og áhrif hans frekar.

Nánari upplýsingar um samrunann má finna hér að neðan:

- Fréttatilkynning framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins

- Fréttatilkynning bandarískra samkeppnisyfirvalda