10.6.2022

Hagar bundnir skilyrðum vegna kaupa á hlutafé í Klasa ehf.

  • Untitled-design-86-

Hagar hafa í dag gert sátt við Samkeppniseftirlitið vegna kaupa félagsins á eignarhlut í fasteignarþróunarfélaginu Klasa ehf. Hin tilkynntu kaup varða kaup Regins og Haga á samtals 66% eignarhlut í fasteignarþróunarfélaginu.

Hagar hafa mjög sterka stöðu á dagvörumarkaði. Taldi Samkeppniseftirlitið að með kaupunum á eignarhlut í fasteignarþróunarfélaginu Klasa kynni sú staða að styrkjast enn frekar, en aðgangur að ákjósanlegum lóðum til reksturs dagvöruverslana getur haft mikil áhrif á samkeppni á þessu sviði.

Vegna þessa hafa Hagar gert sátt við Samkeppniseftirlitið. Í sáttinni er tekið fram að Hagar hafi ekki kauprétt / forkaupsrétt að þeim eignum sem þróaðar verða í samstarfi við Klasa. Jafnframt skuldbinda Hagar sig til að tilkynna Samkeppniseftirlitinu um alla samninga um kaup eða leigu Haga á eignum undir dagvöruverslanir sem verða þróaðar og byggðar undir stjórn Klasa eða Regins. Með því móti er tryggt að Samkeppniseftirlitið hafi yfirsýn yfir áhrif samrunans á stöðu Haga á dagvörumarkaði en ekki liggur fyrir með nákvæmum hætti hvaða eignir verða þróaðar á grunni samrunans.

Sáttin er aðgengileg hér. Ákvörðun, þar sem nánari grein er gerð fyrir forsendum sáttarinnar, verður birt á næstunni.