21.11.2022

Héraðsdómur snýr úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála

Telur Samskip eiga lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um tiltekin atriði í sátt Eimskips við Samkeppniseftirlitið

  • Untitled-design-2022-11-21T091109.734

Héraðsdómur Reykjavíkur sneri á föstudag úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 2. desember 2021. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Samskip hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn áfrýjunarnefndar um tiltekin atriði í sátt Eimskips við Samkeppniseftirlitið frá 16. júní 2021.

Með sáttinni viðurkenndi Eimskip alvarleg brot gegn banni samkeppnislaga við ólögmætu samráði, greiddi 1,5 milljarða króna í stjórnvaldssekt og skuldbatt sig til að grípa til nánar tiltekinna aðgerða í því skyni að vinna gegn frekari brotum og efla samkeppni. Í því fólst meðal annars að Eimskip skuldbatt sig til að hætta öllu samkeppnishamlandi samstarfi við Samskip og önnur fyrirtæki í hvers konar flutningaþjónustu ef Samskip ættu einnig í samstarfi við viðkomandi fyrirtæki. Þessu er lýst nánar í 3. málsgrein 3. greinar sáttarinnar.

Í kjölfar sáttarinnar beindu Samskip kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og kröfðust þess að umrætt ákvæði sáttarinnar um lok samstarfs yrði fellt úr gildi. Töldu Samskip meðal annars að fyrirmæli sáttarinnar fælu í sér ólögmæta takmörkun á samnings- og atvinnufrelsi fyrirtækisins og veikti stöðu þess gagnvart Eimskipi.

Það var niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála að Samskip hefðu ekki átt rétt á því að koma að gerð sáttarinnar við Eimskip og gæti fyrirtækið því ekki borið umrætt ákvæði sáttarinnar undir áfrýjunarnefndina. Í þessu sambandi var tekið fram að þætti Samskipa í rannsókninni væri enn ólokið. Taldi áfrýjunarnefnd því óhjákvæmilegt að vísa kæru Samskipa frá nefndinni.

Í dómi héraðsdóms frá því á föstudag var úrskurður áfrýjunarnefndar sem áður segir felldur úr gildi og komist að þeirri niðurstöðu að Samskip eigi lögvarða hagsmuni af því að fá efnisúrlausn áfrýjunarnefndar í málinu.

Samkeppniseftirlitið mun nú yfirfara niðurstöðu héraðsdóms og forsendur hans. Dóminn má nálgast hér.