29.6.2020

Kaup Malbikunarstöðvarinnar Hlaðbæjar-Colas á tilteknum eignum Drafnarfells samþykkt með skilyrðum

Þann 24. apríl sl. var Samkeppniseftirlitinu tilkynnt um kaup Malbikunarstöðvarinnar Hlaðbæjar-Colas hf. (MHC) á tilteknum eignum Drafnarfells ehf. MHC er stærsta malbikunarfyrirtæki landsins sem starfar við innflutning, framleiðslu og útlögn á malbiki. Drafnarfell er verktakafyrirtæki sem hefur sérhæft sig í fræsingu á malbiki. MHC hefur verið stærsti viðskiptavinur Drafnarfells en hefur ekki sjálft tekið að sér fræsingu á malbiki til þessa.

Við meðferð málsins leitaði Samkeppniseftirlitið sjónarmiða keppinauta og stærstu viðskiptavina félaganna. Í athugasemdum vissra hagaðila komu fram áhyggjur af því að samruninn kynni að valda því að MHC kæmist í stöðu til þess að beita sterkri stöðu sinni á malbiksmörkuðum til þess að útiloka aðra keppinauta frá fræsingarþjónustu í þeim tilvikum þar sem allir þættir malbikunarframkvæmda eru boðnir út saman.

Samkeppniseftirlitið var sammála áhyggjum hagaðila af þessum mögulegu skaðlegum lóðréttum áhrifum samrunans á samkeppni. Í kjölfar þess að þetta frummat var kynnt samrunaaðilum lögðu þeir til skilyrði til þess að bregðast við þessum áhrifum samrunans. Í kjölfar viðræðna og umsagnarferlis gerðu samrunaaðilar hjálagða sátt við eftirlitið þar sem þeir skuldbinda sig til þess að hlíta skilyrðum í starfsemi sinni sem ætlað er að tryggja aðgengi keppinauta að fræsingarþjónustu á samkeppnishæfum kjörum.

Rannsókn samrunans lauk 26. júní 2020. Ákvörðun þar sem nánari grein er gerð fyrir niðurstöðu málsins verður birt á vef Samkeppniseftirlitsins innan tíðar.

Sátt, dags. 22.júní 2020.

Frekari upplýsingar má sjá hér