16.2.2024

Landsréttur staðfestir niðurstöðu héraðsdóms í máli er varðar háttsemi Símans

  • Siminn-enski-boltinn

Með dómi Landsréttar uppkveðnum í dag var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að fella úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála þar sem Síminn var sektaður fyrir að brjóta gegn sátt sem fyrirtækið hafði gert við Samkeppniseftirlitið.

Með sáttinni hafði Síminn skuldbundið sig til þess annars vegar að að gera það ekki að skilyrði fyrir kaupum á fjarskiptaþjónustu fyrirtækisins að línuleg sjónvarps­þjónusta fylgdi með í kaupunum og hins vegar að tvinna ekki saman í sölu fjarskiptaþjónustu fyrirtækisins og línulega sjónvarpsþjónustu gegn verði eða viðskiptakjörum sem jafna mætti til slíks skilyrðis.

Upphaf málsins má rekja til þess að Vodafone (Sýn hf.) kvartaði yfir háttsemi Símans, ásamt því að Nova gerði athugasemdir við háttsemina. Snérist háttsemin einkum um mikinn verðmun og ólík viðskiptakjör við sölu á sjónvarpsstöðinni Símanum Sport, þar sem leikir í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eru sýndir, eftir því hvort áskriftin var boðin innan Heimilispakka Símans (með fjarskiptaþjónustu fyrirtækisins) eða einn og sér í stakri áskrift. Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var háttsemi Símans talin brjóta gegn skilyrðum tveggja sátta sem fyrirtækið hafði gert við eftirlitið og fyrirtækinu gert að greiða sekt í ríkisjóð.

Með úrskurði áfrýjunarnefndar voru brot Símans á annarri sáttinni staðfest, en möguleg brot á hinni sáttinni vísað til nýrrar meðferðar Samkeppniseftirlitsins.

Í málinu reynir á þýðingarmikil atriði í framkvæmd á samkeppnislaga, meðal annars hvort skilyrði samtvinnunar eða vöndlunar viðskipta séu til staðar í skilningi samkeppnisréttarins. Einnig reynir á það hvort fyrirtæki sem gerir sátt við Samkeppniseftirlitið þarf að vera markaðsráðandi svo skilyrði sáttar gildi um það. Í dómi Landsréttar er komist að þeirri niðurstöðu varðandi aðra sáttina að Síminn hafi þurft að vera í markaðsráðandi stöðu svo skilyrði hennar eigi við. Í málinu byggði Samkeppniseftirlitið á því að slík niðurstaða samræmdist hvorki innlendri réttarframkvæmd né réttarframkvæmd í EES-/ESB-samkeppnisrétti.

Samkeppniseftirlitið hefur nú til skoðunar hvort leitaði verði eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dóminum.