31.10.2019

Norsk stjórnvöld hyggjast veita norska samkeppniseftirlitinu málskotsrétt fyrir dómstólum – Skortur á málskotsrétti gagnrýndur af Eftirlitsstofnun EFTA

Í nýkynntum drögum að frumvarpi til breytinga á samkeppnislögum, sem nú eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda, er m.a. lagt til að fella niður heimild Samkeppniseftirlitsins til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla hérlendis. Í skýringum með frumvarpinu er vísað til þess að norska samkeppniseftirlitið geti ekki skotið úrskurðum áfrýjunarnefndar til dómstóla. Í Noregi var sérstakri áfrýjunarnefnd komið á fót árið 2016. Samkvæmt núgildandi lögum hafa einungis fyrirtæki slíkan málskotsrétt til dómstóla, en ekki norska samkeppniseftirlitið.

Í þessu sambandi er vakin athygli á því að þann 30. október birti norska atvinnuvegaráðuneytið tilkynningu þar sem greint er frá því að fyrirhugað sé að veita norska samkeppniseftirlitinu umræddan málskotsrétt til dómstóla. Í tilkynningunni kemur fram að norska samkeppniseftirlitinu sé falið að gæta almannahagsmuna og að það sé óheppilegt að það geti ekki borið úrskurði áfrýjunarnefndar undir dómstóla. Sé það mat norska ráðuneytisins að nauðsynlegt sé að gera þessa breytingu, til þess að tryggja og gæta almannahagsmuna.

Fyrr í vikunni, eða þann 28. október sl., beindi Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) erindi til norska atvinnuvegaráðuneytisins þar sem sett er fram fram sú skýra afstaða ESA að fyrrgreindur skortur á málskotsrétti samkeppnisyfirvalda geti vart talist samþýðanlegur samkeppnisreglum EES-réttar og geti skapað vandamál við beitingu samkeppnisreglna EES-samningsins í Noregi. Enn fremur bendir ESA á að fyrirkomulagið sé andstætt nýrri tilskipun ESB nr. 1/2019, um samræmingu og eflingu valdheimilda samkeppniseftirlita aðildarríkjanna, en hún beinlínis krefst þess að samkeppnisyfirvöld hafi áfrýjunarheimild.

Framangreind afstaða ESA hefur beina þýðingu fyrir og styður við málskotsrétt Samkeppniseftirlitsins hér landi og er í samræmi við þær athugasemdir sem Samkeppniseftirlitið hefur sett fram, m.a. gagnvart atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Gangi lagabreytingar í Noregi eftir munu öll samkeppniseftirlit á Norðurlöndunum, þar á meðal hið íslenska að óbreyttum lögum, hafa heimild til að tryggja að almannahagsmunir og hagsmunir smærri fyrirtækja fái fullnaðarúrlausn fyrir dómstólum.

Samkeppniseftirlitið mun gera nánari grein fyrir mikilvægi málskotsréttar í umsögn sinni um fyrirliggjandi frumvarpsdrög.