29.5.2006

Héraðsdómur dæmir Samkeppniseftirlitinu í hag í máli Sjóvá-Almennra trygginga hf.

Í máli Sjóvá-Almenna hf. gegn Samkeppniseftirlitinu

Í dag dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Samkeppniseftirlitinu í hag í máli Sjóvá-Almennra trygginga hf. gegn Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu. Málið má rekja til þess að í febrúarmánuði árið 2005 sektaði samkeppnisráð Sjóvá- Almennar um 27 milljónir vegna ólögmæts samráðs við Vátryggingafélag Íslands og Tryggingamiðstöðina í innleiðingu svokallaðs Cabas-tjónamatskerfis með ákvörðun nr. 9/2005. Áður höfðu Vátryggingafélag Íslands og Tryggingamiðstöðin gert sátt við samkeppnisyfirvöld þar sem félögin gengust við því að hafa haft með sér ólögmætt samráð við innleiðingu kerfisins og féllust á að greiða sekt upp á 15 og 18.5 milljónir hvort félag. Ákvörðun samkeppnisráðs var síðar að mestu staðfest með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í kjölfar úrskurðar áfrýjunarnefndarinnar höfðaði Sjóvá-Almennar mál gegn Samkeppniseftirlitinu til þess að fá úrskurðinum hnekkt. Eins og áður sagði hafnaði héraðsdómur Reykjavíkur í dag þessari kröfu félagsins og staðfesti þá niðurstöðu að félagið hefði gerst sekt um ólögmætt samráð. Voru Sjóvá-Almennar dæmdar til að greiða málskostnað.

Dómur Héraðsdóms