25.7.2006

Samkeppniseftirlitið setur samruna Dagsbrúnar hf. og Securitas hf. skilyrði

Í janúar á þessu ári keypti Dagsbrún hf. allt hlutafé í Securitas hf. Um er að ræða samruna í skilningi samkeppnislaga. Dagsbrún hf. er móðurfélag Og fjarskipta hf. sem er næst stærsta fjarskiptafélag á Íslandi og 365 ljósvaka- og prentmiðla hf. sem er stærsta fjölmiðlafyrirtæki sinnar tegundar á Íslandi. Securitas starfar á markaði fyrir öryggisþjónustu sem meðal annars felst í fjargæslu heimila, fyrirtækja og sumarbústaða þar sem fjarskiptakerfi eru notuð við gæsluna. Að mati Samkeppniseftirlitsins er Securitas ráðandi á markaði fyrir öryggisþjónustu.

Samkeppniseftirlitið telur að með samrunanum skapist möguleiki á samþættingu öryggisþjónustu við þjónustu annarra dótturfélaga Dagsbrúnar sem komi til með að styrkja stöðu félagsins á markaði fyrir öryggisþjónustu. Er hér einkum um að ræða samþættingu fjarskiptaþjónustu og/eða áskriftarsjónvarps við öryggisþjónustu eins og mál standa í dag. Opinberlega hefur Dagsbrún birt þær framtíðarhorfur félagsins að ný fyrirtæki í samstæðu Dagsbrúnar, eins og Securitas, styrki enn frekar markaðssókn inn á heimili og einstaklingsmarkað þar sem áskriftartekjur skapa sterkan grunn.

Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samruni Dagsbrúnar og Securitas geti, ef ekkert verður að gert, takmarkað núverandi samkeppni og einnig möguleika nýrra aðila til þess að koma inn á öryggisþjónustumarkaðinn. Einnig er það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn geti leitt til samtvinnunar þjónustu af mismunandi þjónustumörkuðum með tilheyrandi ógagnsæi í verðlagningu og hömlum á samkeppni. Af þessum ástæðum er samrunanum sett eftirfarandi skilyrði sem Dagsbrún hefur sæst á að hlíta:
  1. Securitas er óheimilt að gera það að skilyrði fyrir kaupum á þjónustu sem félagið veitir að einhver þjónusta annars dótturfélags Dagsbrúnar fylgi með í kaupunum. Ennfremur er Securitas óheimilt að verðleggja þjónustu fyrirtækisins sem boðin er með þjónustu annars dótturfélags Dagsbrúnar. þannig að verðlagning tilboða jafngildi skilyrði um að ein tegund þjónustu sé keypt með annarri.
    Efnisleg skilyrði 1. mgr. gilda einnig gagnvart öðrum dótturfélögum Dagsbrúnar en Securitas.
  2. Bjóði Securitas sína þjónustu ásamt þjónustu annars dótturfélags Dagsbrúnar skal verð hverrar þjónustu koma fram í tilboðinu. Sama gildir ef önnur dótturfélög Dagsbrúnar bjóða sína þjónustu ásamt þjónustu Securitas.
  3. Brot á þessum skilyrðum varðar viðurlög samkvæmt IX. kafla samkeppnislaga nr. 44/2005. Um forsendur og röksemdir ákvörðunarinnar vísast að öðru leyti til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 34/2006.