1.11.2007

Fréttatilkynning - Umfjöllun um meint samráð matvöruverslana. Samkeppniseftirlitið hvetur til þess að því séu sendar ábendingar.

Í umfjöllun fjölmiðla í gær og í dag hefur því verið haldið fram að matvöruverslanir hefðu með sér ólögmætt samráð. Af þessu tilefni vill Samkeppniseftirlitið hvetja þá sem telja sig hafa upplýsingar um brot á samkeppnislögum til þess að koma þeim upplýsingum á framfæri við eftirlitið. Upplýsingunum er hægt að koma á framfæri í síma eða á skrifstofu eftirlitsins og eru starfsmenn Samkeppniseftirlitsins reiðubúnir að eiga fundi með viðkomandi. Jafnframt er hægt að koma upplýsingum á framfæri í gegnum heimasíðu Samkeppniseftirlitsins www.samkeppni.is nafnlaust eða undir nafni. Gætt er trúnaðar í öllum samskiptum, sé þess óskað.

Æskilegt er að ábendingar um hugsanleg samkeppnislagabrot séu eins ítarlegar og hægt er, s.s. um það hvaða fyrirtæki sé að ræða, hvenær brotin hafi átt sér stað, hvernig staðið hafi verið að samráði og hversu umfangsmikið það hafi verið. Af eðli máls leiðir að ábendingar sem eru ítarlegar um staðreyndir máls eru haldbetri en órökstuddar fullyrðingar.

Frekari upplýsingar um meint samkeppnislagabrot eru forsenda þess að Samkeppniseftirlitið geti metið hvort ástæða sé til að hefja rannsókn. Eru þeir sem telja sig hafa slíkar upplýsingar því hvattir til að koma þeim á framfæri.

Í umfjöllun fjölmiðla hafa einnig komið fram upplýsingar um verðbreytingar í tengslum við verðkannanir. Aðilar geta komið ábendingum um það á framfæri við eftirlitið, samhliða ábendingum um samkeppnislagabrot. Mun Samkeppniseftirlitið fara yfir þær og beina þeim í réttan farveg, s.s. til Neytendastofu. Neytendastofa fer með eftirlit með lagaákvæðum um óréttmæta viðskiptahætti og verðmerkingar.