5.11.2007

Breytingar á reglum um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins

Þann 11. október sl. tóku gildi reglur nr. 924/2007 (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga), um breytingu á reglum nr. 880/2005 (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga) um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins. 

Helstu markmið breytinganna eru að setja samskipti Samkeppniseftirlitsins við lögmenn í fastari farveg og undirstrika ábyrgð þeirra og þeirra fyrirtækja sem þeir starfa fyrir við vinnslu mála.

Breytingarnar eru settar fram að fenginni reynslu síðustu missera. Upp hafa komið tilvik þar sem fyrirsvar lögmanna hefur breyst á meðan málsmeðferð stendur yfir án þess að Samkeppniseftirlitinu hafi verið tryggilega frá því greint. Óvissa hefur ríkt um til hvaða fyrirtækja umboð lögmanna hefur náð í ákveðnum tilvikum. Þá hefur komið upp atvik þar sem aðild að máli var hafnað af lögmanni og viðkomandi fyrirtæki, þrátt fyrir löng og athugasemdalaus samskipti af þeirra hálfu við Samkeppniseftirlitið undir rannsókn málsins.

Helstu breytingarnar á málsmeðferðarreglum Samkeppniseftirlitsins eru eftirfarandi:

Framvísa þarf skriflegu umboði
Feli aðili máls lögmanni að annast fyrirsvar í máli fyrir sína hönd, þarf hann eftirleiðis að framvísa yfirlýsingu um umboð til handa viðkomandi lögmanni, sem undirrituð er af þar til bærum fyrirsvarsmanni fyrirtækisins og viðkomandi lögmanni.

Umboðið nær til allra félaga innan viðkomandi samstæðu
Nema annað sé sérstaklega tekið fram nær umboð lögmanns til allra félaga innan viðkomandi fyrirtækjasamstæðu, ef um fyrirtækjasamstæðu er að ræða.

Tilkynna þarf um breytingar á umboði
Aðila máls og lögmanni ber án tafar að tilkynna Samkeppniseftirlitinu um hvers konar breytingar á fyrirsvari aðila eða umboði lögmanns.

Tilkynna þarf um breytingar á aðild
Telji aðili máls að breytingar sem átt hafa sér stað undir rekstri málsins, t.d. á eignarhaldi hans, geti haft áhrif á aðild hans að málinu, skal tilkynna um þær án tafar.

Samkeppniseftirlitið getur ákveðið að hafa milliliðalaus samskipti við aðila máls
Þrátt fyrir umboð lögmanns getur Samkeppniseftirlitið átt milliliðalaus samskipti við aðila máls. Þannig getur t.d. verið óhjákvæmilegt við vinnslu máls að funda með forstjóra viðkomandi fyrirtækis eða beina til hans bréfum. Í þessum tilvikum sendir Samkeppniseftirlitið afrit formlegra erinda jafnframt til lögmanns aðila. Ennfremur eru milliliðalaus samskipti höfð við aðila máls ef yfirlýsingu um umboð lögmanns er áfátt.

Yfirlýsing um umboð þarf að fylgja formlegum erindum
Feli sá sem beinir erindi til Samkeppniseftirlitsins lögmanni að annast fyrirsvar í málinu fyrir sína hönd, skal yfirlýsing um umboð til handa viðkomandi lögmanni fylgja erindinu. Að öðrum kosti getur Samkeppniseftirlitið hafnað því að taka erindið til umfjöllunar. Í yfirlýsingunni skal staðfest að aðili máls og lögmaður hafi m.a. kynnt sér skilning Samkeppniseftirlitsins á óskilyrtu umboði lögmanns, og áskilnað um tafarlausa tilkynningu um breytingu á fyrirsvari eða aðild.

Framangreindar breytingar öðluðust gildi við birtingu í Stjórnartíðindum, þann 11. október 2007.