15.11.2007

Fréttatilkynning - Samkeppniseftirlitið gerir húsleit hjá fyrirtækjum á matvörumarkaði

Í tilefni af fyrirspurnum fjölmiðla um aðgerðir í dag vill Samkeppniseftirlitið koma eftirfarandi á framfæri.

Samkeppniseftirlitið hefur í dag framkvæmt húsleit á skrifstofum tveggja smásöluaðila og þriggja aðila í innflutningi og heildsölu á matvöru. Til grundvallar aðgerðunum liggja upplýsingar sem Samkeppniseftirlitinu hafa borist og aflað hefur verið frá einstaklingum og fyrirtækjum í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um matvörumarkaðinn nú um daginn. Í fréttatilkynningu 1. nóvember sl. hvatti Samkeppniseftirlitið þá sem teldu sig hafa upplýsingar um brot á samkeppnislögum til þess að koma þeim upplýsingum á framfæri við eftirlitið og hafa allmargir brugðist við þeirri hvatningu.

Rannsókn sú sem nú er hafin beinist einkum að ætluðum brotum á 10. gr. samkeppnislaga, þ.e. hugsanlegu ólögmætu samráði smásöluaðila og birgja. Kemur rannsóknin til viðbótar við aðrar athuganir sem nú standa yfir og áður hafa verið kynntar opinberlega.

Samkeppniseftirlitið mun hraða nýhafinni rannsókn eftir því sem kostur er, en ljóst er að athugunin er viðamikil og að nokkurn tíma mun taka að greina þau gögn sem aflað hefur verið.

Rétt er að vekja athygli á því að þýðingu hefur fyrir skjóta úrlausn málsins hvort fyrirtæki eða einstaklingar ákveða að liðsinna eftirlitinu við rannsókn þess. Ef um brot er að ræða getur Samkeppniseftirlitið samkvæmt lögum fallið frá sektarákvörðun hafi fyrirtæki verið fyrst til að láta því í té upplýsingar eða gögn vegna ólögmæts samráðs sem geta leitt til sönnunar á broti. Einnig er heimilt að lækka sektir ef fyrirtæki liðsinna eftirlitinu með því að veita mikilvæg sönnunargögn. Þá getur Samkeppniseftirlitið ákveðið að kæra ekki til lögreglu hugsanleg brot einstaklinga sem upplýsa um þau og liðsinna við rannsókn. Fyrirtæki og einstaklingar sem hugsanlega hafa tekið þátt í ólögmætu samráði hafa því skýran hag af því að liðsinna eftirlitinu, en það getur á móti leitt til skjótari málsmeðferðar. Nánari upplýsingar um þetta er að finna á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.

Á þessu stigi gefur Samkeppniseftirlitið ekki frekari upplýsingar um rannsóknina.