22.7.2011

Samkeppniseftirlitið ógildir samruna Stjörnugríss hf. við Rekstrarfélagið Braut ehf. og LS2 ehf.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2011 Samruni Stjörnugríss hf. við Rekstrarfélagið Braut ehf. og LS2 ehf. heimilaði Samkeppniseftirlitið yfirtöku Stjörnugríss á tilteknum eignum félaganna, sem hafa farið með rekstur svínabúanna Brautarholts og Grísagarðs. Svínabúin höfðu komist í eigu Arion banka eftir að fyrirtækin sem ráku þau urðu gjaldþrota. Taldi Samkeppniseftirlitið ekki unnt að grípa til íhlutunar í samrunann vegna reglna samkeppnisréttarins um félög á fallanda fæti.

Ákvörðun eftirlitsins var skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kvað upp sinn úrskurð þ. 9. júní 2011 í máli nr. 1/2011 Búvangur o.fl. gegn Samkeppniseftirlitinu. Staðfesti nefndin mat Samkeppniseftirlitsins að með kaupum Stjörnugríss á svínabúunum hefði fyrirtækið komist í markaðsráðandi stöðu á markaði fyrir svínarækt og styrkt markaðsráðandi stöðu sína á markaðnum fyrir slátrun á svínum. Þetta, ásamt styrkri stöðu samstæðunnar á eggjamarkaði, styrki einnig stöðu hennar gagnvart fóðurseljendum, kjötvinnslum og dagvöruverslunum. Hins vegar taldi nefndin ósannað að skilyrðin um fyrirtæki á fallanda fæti væru fyrir hendi. Af þeim sökum var ákvörðun Samkeppniseftirlitsins felld úr gildi og málinu vísað aftur til eftirlitsins til frekari meðferðar og nýrrar ákvörðunar.

Samkeppniseftirlitið hefur nú rannsakað málið að nýju. Með hliðsjón af gagnaöflun og úrskurði áfrýjunarnefndar er í ákvörðun eftirlitsins, sem birt er í dag, komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé sannað að skilyrði reglna um félag á fallanda fæti séu uppfyllt. Samkeppniseftirlitið fær ekki séð að líklegt sé að fyrir hendi séu skilyrði sem væru samrýmanleg samrunanum en að sama skapi til þess fallin að leysa hin samkeppnislegu vandamál sem af honum stafar. Af þeim sökum hefur Samkeppniseftirlitið ógilt samrunann. Samkeppniseftirlitið mun afla upplýsinga frá samrunaaðilum um framkvæmd þeirra á ógildingu samrunans. Á grundvelli þeirra upplýsinga verður tekin afstaða til þess hvort nauðsynlegt sé að beita heimild 17. gr. e. samkeppnislaga nr. 44/2005 og taka sérstaka ákvörðun gagnvart samrunaaðilum til að skapa að nýju skilyrði fyrir virkri samkeppni.