13.9.2011

Óháða, breska bankanefndin um framtíðarskipulag bresks fjármálamarkaðar (ICB) hefur birt skýrslu sína

Lokaskýrsla óháðu bresku bankanefndarinnar, undir forystu Sir John Vickers fyrrum forstjóra breska samkeppniseftirlitsins, hefur nú verið birt. Nefndin leggur m.a. til að reistar verði girðingar á milli viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi innan sömu samstæðu með því að hefðbundin viðskiptabankastarfsemi verði stunduð í sjálfstæðu dótturfélagi sem lúti sérstökum kröfum um eiginfjárhlutfall. Með þessari tillögu telur nefndin að áhætta samfélagsins af áhættumeiri stöðutöku í fjárfestingarbankastarfsemi verði minnkuð verulega.

Nefndin leggur mikla áherslu á samkeppnismál. Hún leggur m.a. til að bresk stjórnvöld tryggi í samningum við stærsta banka landsins, Lloyds Banking Group, að sala hluta eigna bankans leiði til styrkingar á samkeppnislegri stöðu keppinauta og styrki þar með samkeppni á markaði. Þá telur nefndin að aðgangshindranir inn á bankamarkaðinn og kostnaður neytenda við að skipta um banka séu verulega hamlandi fyrir samkeppni á bankamarkaði. Nefndin leggur til að skiptakostnaður verði lækkaður með því að krefja banka um að flutningur viðskiptavina á milli banka gangi hratt og greiðlega fyrir sig.

Að lokum leggur nefndin til að breska samkeppnisnefndin (Competition Commission) taki bankamarkaðinn til sérstakrar rannsóknar eigi síðar en árið 2015 ef breytingar á Lloyds Banking Group hafa þá ekki leitt til myndunar sterkra keppinauta og samkeppnishömlur, svo sem skiptikostnaður, hafa ekki minnkað. Breska samkeppnisnefndin hefur m.a. heimild til að skipta upp fyrirtækjum.

Skýrslu nefndarinnar má finna hér.