13.9.2011

Umræðuskjal um samkeppni á bankamarkaði uppfært

Mynd: Samsett mynd af höfuðstöðvum íslenskra bankaÍ apríl síðastliðnum birti Samkeppniseftirlitið umræðuskjal nr. 1/2011, Samkeppni á bankamarkaði. Í umræðuskjalinu kom fram að Samkeppniseftirlitið muni uppfæra skýrsluna á heimasíðu sinni þegar upplýsingar um markaðshlutdeild banka og sparisjóða í útlánum lægju fyrir en Seðlabankinn hafnaði beiðni Samkeppniseftirlitsins um aðgang að þessum upplýsingum. Í framhaldi af úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 4/2011, Seðlabanki Íslands gegn Samkeppniseftirlitinu, fékk Samkeppniseftirlitið umbeðin gögn afhent.

Ef litið er til markaðshlutdeildar banka og sparisjóða til heimila í lok júní 2011 þá liggur hlutdeild Landsbankans og Íslandsbanka á bilinu 30-35% hvors um sig og Arion banka 20-25%. Hlutdeild Landsbankans í útlánum til fyrirtækja er hins vegar sýnu mest, eða á bilinu 35-40%. Hlutdeild Byrs í útlánum til heimila er á bilinu 10-15% en 5-10% í útlánum til fyrirtækja. Hlutdeild annarra er lægri. Hafa verður í huga að töluverð óvissa ríkir um mat á eignum í kjölfar hrunsins. Aðferðir við verðmat eigna getur verið mismunandi á milli banka og skekkt samanburð.

Markaðshlutdeild útlána til heimila og fyrirtækja í júní 2011

Banki Heimili Fyrirtæki
Landsbankinn 30-35% 35-40% 
Íslandsbanki 30-35% 25-30% 
Arion banki 20-25% 25-30%
Byr 10-15% 5-10%
MP banki 0-5% 0-5%
Aðrir 0-5% 0-5%
Samtals 100% 100%