4.11.2011

Eru bankarnir að drepa samkeppni?

Hvernig á að koma í veg fyrir það?

Pall_Gunnar_Pallsson_img03Bankarnir geta haft úrslitaáhrif á samkeppnisaðstæður hér á landi til framtíðar. Allt frá hruni hefur Samkeppniseftirlitið leitast við að hafa áhrif á þróunina og sporna við samkeppnisröskun. Sumt hefur gengið vel, en annars staðar eru alvarleg hættumerki. Fjallað er um þetta í pistli nr. 2/2011, sem birtur er í dag.

Umfjöllun undanfarinna daga og vikna um rekstur banka á atvinnufyrirtækjum sýnir vel hversu mikilvæg samkeppnismál eru fyrir endurreisn atvinnulífsins. Ástæða er til þess að fagna allri rökstuddri og yfirvegaðri umræðu um þessi mál, en hún skapar með öðru nauðsynlegt aðhald fyrir bankana, fyrirtæki undir yfirráðum þeirra og stjórnvöld sem að  þessu koma.

Samkeppniseftirlitið hefur lagt sig eftir því að fjalla opinberlega um endurskipulagningu bankanna á atvinnufyrirtækjum. Með það í huga er í þessum pistli gerð grein fyrir aðkomu Samkeppniseftirlitsins að þessum málum síðustu misseri og á hvaða sjónarmiðum eftirlitið byggir vinnu sína. Jafnframt er reynt að leggja mat á hvernig til hefur tekist hingað til.