2.12.2011

Dómur Hæstaréttar leiðir til hærri sekta Véla og verkfæra

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins stendur

Vélar og verkfæriÍ apríl 2009 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu með ákvörðun nr. 14/2009 að Vélar og verkfæri ehf. hefðu misnotað markaðsráðandi stöðu sína við sölu á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi.  Þetta gerði fyrirtækið m.a. með því að koma í veg fyrir að þjónustuaðilar höfuðlyklakerfa flyttu inn og seldu slík kerfi frá öðrum framleiðendum en ASSA í Svíþjóð. Brot fyrirtækisins var talið alvarlegt og hafði áhrif á sölu á tilbúnum höfuðlyklakerfum beint til neytenda. Höfuðlyklakerfi eru aðgangskerfi að fasteignum og samanstanda af mismunandi lásum og lyklum fyrir tiltekna fasteign þar sem þó er til staðar einn höfuðlykill sem gengur að öllum lásum. Lagði Samkeppniseftirlitið sekt að fjárhæð kr. 15 milljónir á Vélar og verkfæri og var sú sekt umtalsverð miðað við veltu á viðkomandi markaði.

Vélar og verkfæri kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem í júlí 2009 staðfesti niðurstöðu um brot en lækkaði sekt í 10 milljónir kr. Í úrskurði sínum var áfrýjunarnefnd sammála Samkeppniseftirlitinu um að Vélar og verkfæri væru markaðsráðandi en taldi skilgreiningu eftirlitsins á markaðnum of þrönga og lagði aðra skilgreiningu til grundvallar. Í desember 2010 staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurð áfrýjunarnefndar.

Vélar og verkfæri skutu málinu til Hæstaréttar sem kvað upp dóm sinn í gær. Hæstiréttur felldi úrskurð áfrýjunarnefndar úr gildi þar sem sú niðurstaða nefndarinnar um að breyta skilgreiningu Samkeppniseftirlitsins á markaði málsins hefði ekki verið nægjanlega rökstudd og rannsókn ófullnægjandi. Þessi dómur Hæstaréttar þýðir að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins um brot Véla og verkfæra stendur og ber því fyrirtækinu að greiða 15 milljónir kr. í sektir í stað 10. Uni Vélar og verkfæri ekki þeirri ákvörðun getur fyrirtækið á ný borið málið undir áfrýjunarnefnd.