16.1.2012

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þess efnis að Síminn skuli greiða 60 milljónir kr. í sekt vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu

Mynd: Merki SímansÍ september sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði misnotaði markaðsráðandi stöðu sína með tilboði sem fyrirtækið gerði notendum sumarið 2009 í „3G netlykill og áskrift fyrir 0 kr. í allt sumar“, sbr. ákvörðun nr. 30/2011. Var Símanum gert að greiða 60 milljónir króna í stjórnvaldssekt. Í umræddu tilboði Símans fólst að nýjum viðskiptavinum Símans í gagnaflutningsþjónustu, þar sem 3G netlykill er notaður, var boðinn ókeypis 3G netlykill og frí áskrift að þjónustunni í allt að þrjá mánuði gegn bindingu í viðskiptum í sex mánuði. Taldi eftirlitið að í tilboðinu fælist ólögmæt undirverðlagning. Í slíku broti felst í aðalatriðum að markaðsráðandi fyrirtæki selur vöru eða þjónustu undir kostnaðarverði og raskar þar með samkeppni. Á brot Símans átti sér stað var markaðurinn fyrir 3G gagnaflutningsþjónustu nýr fjarskiptamarkaður í mótun en þjónusta á því sviði hófst síðari hluta árs 2007. Fjarskiptafyrirtækið Nova kvartaði til Samkeppniseftirlitsins yfir tilboðinu. Tók Samkeppniseftirlitið bráðabirgðaákvörðun dags. 2. júlí 2009, þar sem Símanum var bannað að bjóða umrætt tilboð.

Síminn kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Hélt fyrirtækið því fram að það væri ekki markaðsráðandi þar sem Nova hefði haft hærri markaðshlutdeild á markaðnum fyrir 3G gagnaflutningsþjónustu um 3G netlykil. Þá hefði tilboð fyrirtækisins ekki falið í sér lögbrot heldur eðlilega samkeppni. Einnig krafðist Síminn þess að álögð sekt yrði felld niður eða lækkuð verulega.

Í nýjum úrskurði áfrýjunarnefndar kemur fram að Síminn njóti mikilla yfirburða þegar horft er á fjarskiptamarkaðinn í heild sinni. Þeir yfirburðir geri það „sérstaklega brýnt“ að komið sé í veg fyrir að Síminn nýti sér yfirburði sína á hefðbundnum fjarskiptamörkuðum (einkum á sviði fastlínukerfis og farsímaþjónustu) til þess að skapa sér sömu yfirburði á nýjum fjarskiptamörkuðum sem eru í þróun. Annars sé hætta á því að samkeppni á slíkum mörkuðum þróist ekki eðlilega. Staðfesti áfrýjunarnefnd þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að sökum markaðsráðandi stöðu Símans á fjarskiptamarkaði í heild sinni hefði fyrirtækið einnig verið markaðsráðandi á hinum nýja 3G markaði. Nefndin staðfesti einnig þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að tilboð Símans hefði falið í sér brot á 11. gr. samkeppnislaga og 54. gr. EES-samningsins. Taldi áfrýjunarnefnd að brot Símans geti ekki talist léttvægt og var horft til eldri brota fyrirtækisins. Féllst áfrýjunarnefnd því ekki á kröfu Símans um niðurfellingu eða lækkun sektar.

Sjá nánar úrskurð áfrýjunarnefndar nr. 10/2011.