3.2.2012

Ógilding á samruna Valitor og Tax Free stendur

Mynd: Merki ValitorMeð ákvörðun nr. 3/2009 frá 30. janúar 2009, ógilti Samkeppniseftirlitið kaup Valitors hf. á öllu hlutafé í Euro Refund Group North á Íslandi ehf. (Tax Free). Valitor starfar aðallega við útgáfu greiðslukorta og færsluhirðingu en meginstarfsemi Tax Free er á sviði endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna.

Komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að markaðir þeir sem fyrirtækin starfa á væru nátengdir. Um væri að ræða samruna þar sem skapast gæti mikill möguleiki, geta og hvati til útilokunar keppinauta á mörkuðum fyrir greiðslukortastarfsemi, posaleigu, endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna og svokölluðum gjaldeyrisumsnúningi. Í því síðastnefnda felst þjónusta við erlenda ferðamenn um uppgjör viðskipta með kreditkortum í erlendum gjaldmiðli. Samruninn var því talinn fela í sér alvarlegar samkeppnishömlur.

ERGN kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að ákvörðun eftirlitsins yrði felld úr gildi þar sem ósannað væri að samruninn hefði í för með sér skaðleg áhrif á samkeppni. Í maí 2009 staðfesti áfrýjunarnefnd hins vegar ógildingu Samkeppniseftirlitsins á samrunanum nr. 6/2009 þar sem hann þótti í grundvallaratriðum andstæður samkeppnislögum.

ERGN og Valitor skutu úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla og í febrúar 2011 felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðinn úr gildi þar sem hann taldi ósannað að umræddur samruni myndi raska samkeppni. Samkeppniseftirlitið skaut dómi héraðsdóms til Hæstaréttar. Með dómi sínum í dag vísaði Hæstiréttur máli þessu frá héraðsdómi. Sú niðurstaða þýðir að ógilding samkeppnisyfirvalda á samrunanum stendur.