Beiting nýrra heimilda Samkeppniseftirlitsins sem m.a. geta leitt til uppskiptingar fyrirtækja
- Grunnur lagður að ítarlegri rannsóknum á einstökum mörkuðum
Samkeppniseftirlitið hefur í dag gefið út umræðuskjal um íhlutun í samkeppnishindranir þegar ekki er um brot á samkeppnislögum að ræða.
Í fyrra var lögfest heimild Samkeppniseftirlitsins til þess að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að efla samkeppni, þ.m.t. uppskiptingu markaðsráðandi fyrirtækja. Ekki er skilyrði fyrir beitingu heimildarinnar að brot á bannreglu samkeppnislaga hafi átt sér stað eða að um samkeppnishamlandi samruna sé um að ræða. Þessi heimild kemur þannig til viðbótar við önnur úrræði samkeppnislaga og er viðleitni í þá átt að skapa heildstætt kerfi þar sem reynt er eftir föngum að vinna gegn því að almenningur og fyrirtæki bíði tjón vegna hvers konar háttsemi eða aðstæðna sem raska samkeppni.
Í umræðuskjalinu eru birt drög að leiðbeiningum um beitingu ákvæðisins, einkum um það hvernig Samkeppniseftirlitið hyggst beita markaðsrannsóknum sem undanfara hugsanlegra aðgerða á grundvelli ákvæðisins. Markaðsrannsókn er hagfræðileg greining á samkeppni á tilteknum markaði. Hún lýtur að markaði í heild sinni fremur en afmörkuðum hlutum hans og er því gott tæki til að fá heildaryfirsýn yfir samkeppnislegar aðstæður á markaði.
Með umræðuskjalinu er óskað eftir sjónarmiðum og athugasemdum um þessi áform Samkeppniseftirlitsins. Sérstaklega er óskað eftir sjónarmiðum um framkvæmd markaðsrannsókna og um það hvaða markaður skuli fyrst sæta slíkri rannsókn. Óskað er eftir sjónarmiðum fyrir 15. mars nk.