23.2.2012

Niðurstaða samkeppnisyfirvalda um að synja Valitor aðgangi að gögnum felld úr gildi

Mynd: Merki ValitorHæstiréttur hefur í dag staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að fella beri úr gildi þá niðurstöðu samkeppnisyfirvalda að synja Valitor hf. um aðgang að gögnum. Forsaga málsins er sú að Borgun hf. beindi erindi til Samkeppniseftirlitsins þar sem kvartað var yfir háttsemi Valitor hf. Undir rekstri málsins féllst Samkeppniseftirlitið á þá kröfu Borgunar að farið yrði með tilteknar upplýsingar í kvörtuninni sem trúnaðarmál. Var Valitor því synjað um aðgang að upplýsingunum. Málið fór í tvígang til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og urðu lyktir þær í síðari úrskurðinum að staðfesta bæri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að synja um aðgang að upplýsingum um tiltekna viðskiptavini Borgunar. Stefndi Valitor þeirri niðurstöðu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur er staðfest að hagsmunir heimildarmanna samkeppnisyfirvalda geti réttlætt nafnleynd þeirra gagnvart markaðsráðandi fyrirtæki þannig að takmarkaður sé aðgangur þess að gögnum sem varpað geta ljósi á hverjir heimildarmenn séu. Á hinn bóginn var bent á að þetta ætti aðeins við ef raunveruleg ástæða væri til að óttast að heimildarmenn gætu orðið fyrir tjóni ef upplýst væri um þá. Taldi dómurinn að svo væri ekki í þessu máli. Ekki lægi því fyrir að hagsmunir viðkomandi aðila af því að njóta nafnleyndar væru mun ríkari en hagsmunir Valitor hf. af því að fá að kynna sér gögn málsins.

Eins og áður segir hefur Hæstiréttur nú staðfest þennan dóm héraðsdóms með vísan til forsendna.